Rússneskir íþróttamenn hafa verið í banni frá keppni eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu í febrúar í fyrra. Mörg íþróttasambönd hafa fylgt fordæmi IOC í málinu líkt og knattspyrnusamböndin FIFA og UEFA.
Á fundi dagsins í dag tók framkvæmdanefnd IOC annað skref í átt að útilokun Rússa með því að fella úr gildi starfsleyfi Ólympíunefndar Rússa og banna hana frá störfum um óákveðinn tíma.
„Rússneska Ólympíunefndin hefur verið leyst frá störfum samstundis þar til ákvörðun er tekin um annað,“ segir í yfirlýsingu frá framkvæmdaráði IOC í dag.
IOC Executive Board suspends Russian Olympic Committee with immediate effect.
— IOC MEDIA (@iocmedia) October 12, 2023
IOC statement: pic.twitter.com/vS7YoT1MLx
„Rússneska Ólympíunefndin hefur ekki lengur leyfi til að starfa sem landsnefnd, líkt og skilgreind er í Ólympíusáttmálanum, og má ekki fá neinn fjárhagslegan stuðning frá Ólympíuhreyfingunni,“ segir þar enn fremur.
IOC heldur því samt sem áður opnu að rússneskir íþróttamenn taki þátt undir hlutlausum fána, líkt og margir slíkir gerðu eftir að upp komst um lyfjahneyksli í rússneskum íþróttum fyrir örfáum árum síðan.
„Líkt og greint var frá í yfirlýsingu þann 28. mars, sem stendur enn, áskilur IOC sér rétt til að taka ákvörðun um þátttöku hlutlausra íþróttamanna með rússneskt vegabréf hvað varðar þátttöku á Ólympíuleikunum í París 2024 og á Vetrarólympíuleikunum í Mílanó og Cortina 2026, þegar þar að kemur,“ segir í yfirlýsingu IOC.