„Ég hef grætt á öllum mínum áföllum“ Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar 8. október 2023 07:01 „Allt sem mér hefur fundist hrikalegast og agalegast hefur komið vel út og mér til góða og gagns,“ segir Silja á áttræðisafmælinu sínu. Vísir/Vilhelm Á síðustu fjórum árum hafa orðið mikil kaflaskil í lífi Silju Aðalsteinsdóttur. Lífsförunauturinn, Gunnar Karlsson sagnfræðiprófessor, féll frá og hún braut upp hálfrar aldrar heimili þeirra í kjölfar fótbrots. En Silja segir áföll alltaf hafa farið á besta veg í lífi sínu. Óvænta óléttan sem kom í veg fyrir myndlistarnám í París, ferðalagið austur á land sem varð til þess að hún kynntist líffræðilegri fjölskyldu sinni og litla stúlkubarnið sem eiginmaðurinn eignaðist utan hjónabands en hefur aldrei verið annað en gæfuljós í lífi Silju. Silja hefur ekki setið auðum höndum. Ferillinn er litríkur, hún er bókmenntafræðingur, þýðandi, ritstjóri, blaðamaður og gagnrýnandi, og maður fer ekki á listsýningu eða í leikhús án þess að sjá þessa kviku, glaðværu konu í djúpum samræðum. Svo heyrist hláturinn sem er einkennandi fyrir Silju; einlægur, glettinn og sjarmerandi. Silja hefur hlotið hin ýmsu verðlaun. Bæði Íslensku bókmenntaverðlaunin og Íslensku þýðingarverðlaunin. Hún hlaut riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu árið 2015 fyrir framlag sitt til íslenskra bókmennta. Á milli menningarviðburða les Silja yfir bókahandrit og prófarkir þótt hún hafi formlega hætt störfum fyrir tíu árum og er nú þegar komin vel á veg með jólabókaflóðið. Hún fer í pilates, syngur í kór og hlakkar til hverrar æfingar. Og hún horfir blákalt framan í fortíðina á sjálfan afmælisdaginn þegar þetta viðtal er tekið og vill engu breyta, nema hún hefði viljað byrja fyrr í kór. Bent á fóstureyðingu eða ættleiðingu Silja varð nefnilega áttræð í vikunni og þar sem hún er selskapskona var auðvitað haldin veisla. Nýja íbúðin sem hún flutti í á árinu rúmaði gestina vel enda minnir íbúðin helst á þakíbúð á Manhattan, gengið beint inn úr lyftunni og við tekur stórt rými. Þakið bókum að sjálfsögðu og myndlist á veggjum. „Ég ætlaði upphaflega að verða myndlistarmaður. Ég fór til Dublin í myndlistarskóla upp úr tvítugu, ætlaði að vera þar einn vetur og fara svo til Parísar og halda áfram námi. En það gerðist tvennt. Mér fór að leiðast að vera bara í myndlist, það nægði mér ekki. Og b – þá var ég ólétt þegar ég fór utan. Þannig að ég hunskaðist heim með skottið milli afturlappanna og baðst ásjár. Þetta var náttúrulega Sif. Stóra stelpan mín.“ Silja segist ekki hafa neina þörf á að skapa eftir að hún drap í sér myndlistarmanninn. Henni er nóg sköpun að sjá aðra skapa, eins og hún orðar það og það má sjá á veggjunum í íbúð hennar - og bókaskápunum.Vísir/Vilhelm Sif Gunnarsdóttir forsetaritari er kennd við eiginmann Silju en hann var þó ekki kominn til sögunnar á þessu stigi málsins. „Þetta var náttúrulega meira en lítið áfall því ég var furðu grandalaus. Pabbinn var gamall vinur minn en hann var ekki eiginmannsefni fyrir mig - og ég ekki eiginkonuefni fyrir hann.“ Silja fór til læknis í Dublin til að fá óléttuna staðfesta og ræða hvað væri hægt að gera. Og verandi í kaþólsku landi var henni bent á að fara annað hvort til London í fóstureyðingu eða gefa barnið til ættleiðingar. „Ég er sjálf gefin. Og þótt ég hafi verið rosalega heppin og átt dásamlega foreldra þá veit ég, þar sem ég kynntist blóðmóður minni, að þetta var alla tíð mikil sorg í lífi hennar. Svo heyrir maður í dag hræðilegar sögur um ættleiðingar á Írlandi og ég fæ bara gæsahúð niður allt bak af skelfingu. Ég slapp við það, ég hef alltaf sloppið helvíti vel.“ Menningaruppeldi í Skeggjabekk Kjörforeldrar Silju voru bændur í Eyjafirði þegar hún fæddist en urðu verkafólk á mölinni, fyrst á Akureyri og svo í Reykjavík. Þar fór Silja í Laugarnesskóla og var í Skeggjabekknum umtalaða. „Skeggi lét mig syngja og performera á sviði og lesa upp. Ég hafði þennan frábæra norðlenska framburð sem Skeggi hafði svo mikla ást á.“ Silja lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík, BA-prófi í íslensku og ensku frá Háskóla Íslands ásamt kandídatsprófi í íslenskum bókmenntum. Menntunin hefur nýst vel til fjölbreyttra starfa, til dæmis þýðingarstarfa. En það voru leikhúsferðirnar með skólanum sem kveiktu óbilandi áhuga Silju á menningunni. Enn í dag skrifar hún leikhúsgagnrýni og gaf út bók með úrvali leikdóma á afmælisdaginn fyrir sig og sína nánustu. Af því tilefni fór hún yfir alla dómana sína, sem hlaupa á hundruðum. Hún segist hafa verið harðari á yngri árum. „En ég er svo hrifnæm að ég verð ekki verulega óvinsæl. Það kemur fyrir að mér leiðast bækur en mér leiðist aldrei í leikhúsinu því þar finnur maður svo vel að fólk er að leggja sig fram, gefa manni eitthvað.“ Silja lék aðeins á háskólaárunum og var hvött til að sækja um í leiklistarskólanum en þá var hún komin með heimili og barn og fannst hún ekki manneskja í þá vegferð. En Gunnar fýraði upp í leikhúsástinni. „Hann hafði óbilandi áhuga á leikhúsinu eftir að hafa hlustað af áfergju á útvarpsleikhúsið í einangrun sveitarinnar – á bæ sem er einna fjærst hafi á Íslandi. Hann var búinn að sverja að þegar hann flytti í bæinn myndi hann fara á allar leiksýningar og hann stóð við það eins og efni leyfðu.“ Blankir bóhemar Eftir að Silja flutti heim frá Dublin með litlu Sif undir belti hóf hún nám í Háskóla Íslands. „Það var góð ákvörðun. Ég var enginn stórkostlegur listamaður. Barnabörnin mín eru miklu betri en ég var nokkurn tíma. Þær eru tvær útskrifaðar úr Listaháskólanum þannig að þetta fer áfram, þetta eyðist ekki, eflist bara.“ Á fyrsta ári í háskólanum kynntist Silja Gunnari. „Honum fannst hann ekki eiginmannsefni fyrir mig, honum fannst hann ómögulegur og var hræddur um að hann yrði aldrei almennileg fyrirvinna,“ segir hún hlæjandi og bætir við að þau hafi bætt hvort annað upp. Hún hafi til dæmis létt hann og opnað félagslega. „Hann hefði aldrei haldið eins mörg partý án mín.“ Silja og Gunnar á brúðkaupsdaginn 29. júlí 1967 Gunnar gekk Sif í föðurstað og svo bættist önnur dóttir við, Sigþrúður, sem hefur alla tíð starfað í bókmenntabransanum og er í dag framkvæmdastjóri Forlagsins. Silja og Gunnar keyptu raðhús í Laugarneshverfinu sem Silja segir að hafi verið alltof dýrt fyrir þau. „Við bara komumst ekki hjá því að kaupa það. Eigandinn vildi ekki selja neinum öðrum. Við vorum tilneydd!“ Það voru ekki miklir peningar milli handanna en Silja segir þau aldrei hafa soltið. „Og þú sérð hvað ég bý vel í dag,“ segir Silja sem er svo ánægð í nýju íbúðinni. „En jú, við vorum skítblönk fram eftir öllu.“ Þau fengu þó tækifæri til að búa í útlöndum vegna starfa Gunnars. „Þá var Gunnar annað hvort að kenna eða í rannsóknarleyfi frá háskólanum. Það er svo hollt að sjá landið sitt úr fjarska. Sjá hvaða kosti það hefur - og hugsanlega einhverja galla.“ Getur ekki verið dauðanum reið Gunnar dó fyrir tæpum fjórum árum, mánuði eftir áttræðisafmæli sitt. „Við héldum mjög skemmtilega veislu. Hann vildi það ekki, sagðist vera gamall karl og hættur að hafa gaman af nokkru.“ En eins og vanalega hlustaði Silja ekki á nei þegar kemur að selskap og stuði. „Og hann skemmti sér svo vel í veislunni. Sagðist ekki hafa vitað að það væri svona gaman að vera áttræður. Mánuði síðar var hann dáinn.“ Silja og Gunnar. Þau kynntust í háskólanum og voru gift í meira en hálfa öld. Samstillt en líka ólík. Bættum hvort annað upp, segir Silja um hjónabandið. Gunnar var búinn að eiga við veikindi og það fór illa í hann að vera veikburða og geta ekki treyst á minnið eins og áður. „Hann vissi allt um Íslandssögu frá örófi alda og þegar hann fór að finna að hann mundi ekki eins vel þá varð hann pirraður. Sem var ekki líkt honum. Hann tók dauðanum glaður. Maður er aldrei viðbúinn en hann var bara svo sáttur að ég gat ekki verið vanþakklát og verið dauðanum reið.“ Gjöfin sem kom út úr óróatíma Hjónabandið varði í 53 ár. Gunnar var gott eiginmannsefni eftir allt saman. En hvað með þriðju dótturina? „Gunnar eignaðist barn með annarri konu árið 1982. Sú stúlka hefur verið algjört yndi, alla tíð. Það var ákveðin lausung í hjónabandinu á þessum tíma. Við vorum búin að vera saman í tíu, fimmtán ár og komin með tvö börn. En það var alveg rosalega mikið að gerast í lífi mínu. Ég var til dæmis mjög upptekin af Samtökum farandverkafólks og var yfir mig heilluð af Tolla Morthens. Ég held ég hafi bara orðið ástfangin af honum. Hann var allt í öllu og ég var ritari samtakanna, þvældist með á fundi um allar trissur og þýddi fyrir erlendu farandverkamennina. Lífið var svo þrungið af viðburðum, byltingin virtist vera á næsta horni og ég var alveg eins og ég veit ekki hvað. Þetta endaði á að Gunnar fór með mig úr landi.“ Systurnar þrjár. Elísabet, Sigþrúður og Sif. Og eftir átta mánaða dvöl í London var Silja orðin rólegri. „En það var óróatími í samfélaginu og í lífi okkar og út úr því kom barn. Ég gat ekki áfellst hann fyrir neitt og barn er alltaf gjöf.“ Silja vissi af barninu frá fæðingu þess en faðernið var ekki gert opinbert fyrr en barnið var tveggja ára. „Gunnar þjáðist fyrir þetta, fannst hann vera platmaður, falskur maður. Svo loks þegar hann var skráður sem faðir barnsins þá létti af honum mörgum kílóum og svo varð ég ástfangin af barninu. Ástfangin af henni Elísabetu.“ Gunnar og Silja ræddu vel stöðuna, bæði hjónabandið og hvernig umgengnin yrði. Þar með var málið útkljáð milli hjónanna. „Gunnar sótti hana einn dag í viku, á miðvikudögum, sem við höldum enn upp á. Miðvikudagar eru fjölskyldumatardagar. Elísabet varð partur af fjölskyldunni og systurnar báðar rosalega skotnar í henni. Í dag á hún þrjá drengi og einn þeirra heitir Aðalsteinn,“ segir Silja stolt á svip. Miðvikudagshópurinn samankominn. Gunnar og Silja, dæturnar, tengdasynir og barnabörnin.Gunnar Freyr Og hún er líka svo stolt af Elísabetu sem er deildarstjóri hjá Barnavernd Reykjavíkur, ljómar upp þegar hún lýsir einstökum hæfileikum hennar á því sviði. „Það var gæfa okkar Gunnars að leysa vel úr þessu en svo er hún Elísabet ekkert venjuleg. Hún er svo mögnuð.“ Kynntist móður sinni fertug Það heyrist að fjölskyldan er dýrmæt og Silja segist eiga óskaplega gott bakland. Dásamlegar dætur, einstaklega væna tengdasyni og yndisleg barnabörn. Samskiptin eru mikil og samveran nærandi. Sjálf átti Silja einn bróður sem foreldrar hennar ættleiddu þegar hún var fimmtán ára. Hann dó einungis tveim árum eftir Gunnari. „Hann hét líka Gunnar. Það liggur við að ég sjái jafn mikið eftir þeim báðum. Hann var svo yndislegur.“ Silja segist hafa verið umkringd mönnum sem hétu Gunnar. Afi hennar hét Gunnar og hér eru hinir tveir sem voru henni svo dýrmætir. Eiginmaðurinn að sjálfsögðu og Gunnar bróðir ásamt eiginkonu hans, Soffíu. Foreldrar Silju gátu ekki eignast börn og voru þau Gunnar mikil óskabörn. Þau voru kjarnafjölskylda í Reykjavík. En úti á landi átti Silja tvær aðrar fjölskyldur, móður megin og föður megin. Þau voru bæði gift öðru fólki og áttu sín börn. En Silja vissi alveg frá því hún var smástelpa að hún væri ættleidd, enda var líffræðilegur faðir Silju bróðir pabba hennar. „Ég kynntist móður minni fertug. Við Gunnar fórum austur á land og vinur minn ákvað að sýna mér ömmu mína sem lifði enn þá. Þar hitti ég Guðrúnu ömmu mína, sem spilaði á harmonikku og var ægilega hress. Þegar ég kom aftur í bæinn hringdi móðir mín í mig, sagðist hafa frétt að ég hefði hitt ömmu og spurði: „Þýðir það þá að þú viljir hitta mig?“ Og ég sagði já.“ Silja í kringum tólf ára aldurinn með kjörforeldrum sínum; Aðalsteini og Valgerði. Gunnar bróðir bættist við þremur árum síðar. Silja átti heilmikil samskipti við móður sína þau ár sem hún átti eftir, sem voru heil fjörutíu. En ertu ekkert krumpuð þarna? „Ég ætti náttúrulega að vera alveg hreint tvöföld af komplexum eftir að hafa verið hafnað sem ungabarni. En það er ekki til. Ég held ég hafi verið agalega heppin. Þau bjuggu úti á landi, móðir mín og maðurinn hennar með sín börn. Ég er ekki viss um að ég hefði farið í menntaskóla ef ég hefði alist upp hjá þeim. Ég hugsaði stundum eftir að ég kynntist henni hvernig líf mitt hefði getað orðið og fannst sennilegast að ég hefði orðið verkalýðshetja á Siglufirði. Sem er alls ekki slæmt hlutskipti. Bara annað.“ Blaðamennskan heillandi Sáttin er áþreifanleg í tali Silju. „Ég hef grætt á öllum mínum áföllum. Allt sem mér hefur fundist hrikalegast og agalegast hefur komið vel út og mér til góða og gagns.“ Sagt er að eftirsjáin komi vegna þess sem maður gerir ekki. Það útskýrir af hverju Silja finnur ekki til eftirsjár. Hún hefur prófað og gert svo margt. Myndlist, leiklist og söng. Hún hefur rýnt í fræðin og skrifað fræðibækur. Þýtt bækur, lesið inn á hljóðbækur. En af öllu þessu finnst henni blaðamennskan hafa passað sér best. „Ég var ritstjóri á Þjóðviljanum í hálft ár, fyrsta konan sem var ritstjóri dagblaðs á Íslandi. Það var bara svo óttalega stuttur tími að það telst varla með. Ég hafði lítinn áhuga á leiðaraskrifum og pólitískt mótandi efni. Ég hafði langmestan áhuga á menningarefni og að taka viðtöl.“ Eftir Þjóðviljareynsluna fór Silja að skrifa gagnrýni í DV og þegar henni var boðið að vera menningarritstjóri var hún ekki lengi að segja já. Og við það starfaði hún í átta ár, 1996-2003. „Og það var bara alveg dásamlegur tími. Þá fór ég virkilega á allar sýningar. Ég fékk ókeypis inn á allt sem er gríðarleg gjöf og maður verður að notfæra sér hana. Ég sá mjög eftir Dagblaðinu þegar það dó. Þetta blað hafði mikinn metnað, sérstaklega meðan Sveinn gaf út og Jónas var ritstjóri.“ Silja skrifaði æsku- og athafnasögu Sveins R. Eyjólfssonar blaðaútgefanda árið 2017. Fyrir utan ferilinn á Þjóðviljanum og DV var Silja um langt skeið ritstjóri Tímarits Máls og menningar. Fáránlegt að hún skrifi textana hans Bubba Silja hefur dýft tánum í nær allar listgreinar en segist algjörlega laus við listamannsdrauma eftir að hún drap í sér myndlistarmanninn. „Mig langar ekkert til að skapa sjálf. Mér er nóg sköpun að horfa á aðra skapa og reyna að segja frá þannig að fleiri frétti af því.“ Og hún leggur sannarlega sitt af mörkum þar. Enn með fjölmörg verkefni, að lesa yfir handrit, skrifa dóma og miðla menningu. „Það er eitt einkenni við mig sem ég held að enginn hafi áttað sig á en sem ég ætla að koma upp um núna. Ég hef áráttu fyrir því að gera gagn. Þetta er náttúrulega svolítið sjúklegt. Ég nýt þess og ef ég fæ á tilfinninguna að ég hafi komið einhverjum að gagni eða gert einhverjum gott þá er það svo fullnægjandi. Að lesa yfir handrit fyrir manneskju, til dæmis, og segja henni hvað hún geti gert betur og sjá svo útkomuna í bókinni síðar.“ Í afmælisveislunni síðustu helgi. Silja hefur verið ritstjóri Bubba Morthens í áratugi og lesið yfir síðustu bækur Hallgríms Helgasonar, auk þess að halda fyrirlestra og námskeið um bækur hans.Hrafnhildur Hafsteinsdóttir Silja áréttar að rithöfundar taki mjög mismunandi mikið mark á henni en að athugasemdir hennar fái þá þó til að hugsa og jafnvel búa til eitthvað nýtt. „Við getum tekið Bubba sem dæmi. Ég spyr hann hvað hann meini með þessari línu eða hvað hann sjái fyrir sér. Ég yrki ekki fyrir hann eða segi honum hvernig hann eigi að orða hlutina. Ég ýti við honum og hann með sinn eilíft skapandi heila býr til nýja mynd eða ljóðlínu.“ Silja hefur verið ritstjóri Bubba í áratugi. Lesið textana hans. En slúðursagan um að hún skrifi hreinlega textana er lífsseig. „Já, ég hef heyrt það og mér finnst það fáránlegt. Ég er svo laus við skáldgáfu að það er beinlínis hlægilegt. En ég hef ofboðslega gaman af því að sjá hvernig hann vinnur úr potinu mínu.“ Sennilega með ADHD Síðustu helgi mætti einmitt Bubbi í afmælisveislu Silju ásamt öðrum góðum gestum og tók að sjálfsögðu lagið. Það var standandi stuð til klukkan þrjú um nóttina. Áttræð er hún. Hvernig getur það staðist? Á meðan viðtalinu stendur skoppar hún um íbúðina, hoppar í dyrasímann að hleypa inn ljósmyndaranum, svo kvik og létt. Líkaminn og andinn í fullu fjöri. Þessar bókahillur hannaði og smíðaði Gunnar handa Silju og voru þær alltaf inni á skrifstofu hennar á Hrísateignum. Nú hafa þær fengið nýjan stað og njóta sín sem aldrei fyrr. Vísir/Vilhelm „Ég er í pilates hjá henni Lóló í World Class því það er svo mikilvægt að halda sér liðugum og léttum á fæti. Hreyfingarnar skipta meira máli en hrukkurnar. Fólk sér ekki hvað ég er rosalega hrukkótt þegar ég hreyfi mig eins og ung manneskja. Horfðu bara á bakið á fólki sem þú labbar á eftir og giskaðu á aldur þess. Þú metur það út frá hreyfingunum. Svo er kannski andlitið ungt sem þú hélst að væri eldri manneskja. Og öfugt.“ En verður þú aldrei löt og langar bara að hanga svolítið og tuða yfir sjónvarpinu? „Nei ég er mjög orkumikil. Ætli ég sé ekki bara með ADHD? Eigum við ekki bara að kenna því um þessa ofurorku?“ spyr hún hlæjandi en bætir svo við: „En þetta er virðulegur aldur. Ég vaknaði í morgun og fann að ég var áttræð og það var bara æðislegt.“ Ekki bíða, gera! Silja er þakklát fyrir heilsuna enda fékk hún að kynnast því að vera tekin úr leik fyrir rúmu ári síðan þegar hún tvíbraut sig á fæti. „Það var agalegt. Ef ég ætti eina ósk þá myndi ég óska þess að það kæmi ekki fyrir aftur. Það var svo óþægilegt. Þó hafði það þær góðu afleiðingar að ég flutti. Braut upp heimili til 56 ára og henti, gaf og losaði mig við óstjórnlegt magn af pappír, bókum og hlutum. Og það var gríðarlegur léttir. Það má segja að jafnvel fótbrotið hafi verið til góðs, eins og öll önnur áföll sem ég hef orðið fyrir.“ Það vantar ekki atorkuna í Silju. Hún þakkar pilates fyrir léttar hreyfingar og veltir fyrir sér hvort hún sé mögulega ofvirk.Vísir/Vilhelm Jákvæð sýn á lífið og lífsgleðin fleytir Silju langt og framtíðinni kvíðir hún ekki, hvorki einveru né einmanaleika „Maður á að vera svolítið djarfur að hringja eða jafnvel banka upp á hjá fólki. Það er alltaf hægt að segjast koma seinna ef maður hittir illa á. Ekki bara bíða. Sitja og bíða og tuða yfir sjónvarpinu. Gera!“ Helgarviðtal Bókmenntir Menning Mest lesið Jólagjafir íslenskra vinnustaða Lífið Jólagjöf ársins er stóllinn sem getur allt nema flogið Lífið Brostnar væntingar á Frostrósum Gagnrýni Besta jólagjöfin að sjá bata foreldranna Lífið Áreittar í sundi fyrir það að vera hinsegin Menning Guðmundur „ofpeppaðist“ og reif sig á kassann Lífið „Í stórgróða“ að eyða jólunum á Tene Lífið Frægir fjölguðu sér árið 2024 Lífið Ellen Margrét og Arnmundur orðin hjón Lífið Smakkaði skötu í fyrsta sinn undir eftirliti sérfræðinga Lífið Fleiri fréttir Jólagjafir íslenskra vinnustaða Jólagjöf ársins er stóllinn sem getur allt nema flogið Besta jólagjöfin að sjá bata foreldranna Smakkaði skötu í fyrsta sinn undir eftirliti sérfræðinga Guðmundur „ofpeppaðist“ og reif sig á kassann Hafi ekki tekið þátt í herferð gegn Lively Einn frægasti krókódíll í heimi allur Myndaveisla: Rauð jól hjá Jökli í Kaleo „Í stórgróða“ að eyða jólunum á Tene Ellen Margrét og Arnmundur orðin hjón Kolféll fyrir Amsterdam og hollenskum strák Límdi fyrir munninn á öllum við borðið „Fyrstu jólin án hans og sætið hans verður tómt“ Stjörnulífið: Bikiníjól og jól í Japan Frægir fundu ástina 2024 „Að horfa upp á ofbeldi er jafn mikið ofbeldi og að verða fyrir því“ Netverjar koma „bomsum“ Ingu á Bessastöðum til varnar Dóttir Elínar Mettu og Sigurðar komin með nafn 107 ára gömul og dansar eins og unglamb Krakkatían: Jólasveinar, stjörnustríð og þjóðsögur Mest skreytta jólahúsið í Hveragerði Blaðasnápurinn Stefán Einar fórnar kampavínskóngstitlinum Hlaupársdagurinn þegar Ölfusá flæddi inn í Selfossbæ Fréttatía vikunnar: Lýðheilsa, ísbúð og álag Frægir fjölguðu sér árið 2024 Forsetinn og viðskiptavinir fengu forsmekk að Vigdísi Fékk bónorð í jólagjöf á tónleikum Paul McCartney Fékk Sigurbjörn Árna til að lýsa óhappi í vinnunni „Það besta, versta og skrýtnasta á árinu“ Eitt fallegasta hús landsins sem Duna Laxness ólst upp í Sjá meira
Silja hefur ekki setið auðum höndum. Ferillinn er litríkur, hún er bókmenntafræðingur, þýðandi, ritstjóri, blaðamaður og gagnrýnandi, og maður fer ekki á listsýningu eða í leikhús án þess að sjá þessa kviku, glaðværu konu í djúpum samræðum. Svo heyrist hláturinn sem er einkennandi fyrir Silju; einlægur, glettinn og sjarmerandi. Silja hefur hlotið hin ýmsu verðlaun. Bæði Íslensku bókmenntaverðlaunin og Íslensku þýðingarverðlaunin. Hún hlaut riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu árið 2015 fyrir framlag sitt til íslenskra bókmennta. Á milli menningarviðburða les Silja yfir bókahandrit og prófarkir þótt hún hafi formlega hætt störfum fyrir tíu árum og er nú þegar komin vel á veg með jólabókaflóðið. Hún fer í pilates, syngur í kór og hlakkar til hverrar æfingar. Og hún horfir blákalt framan í fortíðina á sjálfan afmælisdaginn þegar þetta viðtal er tekið og vill engu breyta, nema hún hefði viljað byrja fyrr í kór. Bent á fóstureyðingu eða ættleiðingu Silja varð nefnilega áttræð í vikunni og þar sem hún er selskapskona var auðvitað haldin veisla. Nýja íbúðin sem hún flutti í á árinu rúmaði gestina vel enda minnir íbúðin helst á þakíbúð á Manhattan, gengið beint inn úr lyftunni og við tekur stórt rými. Þakið bókum að sjálfsögðu og myndlist á veggjum. „Ég ætlaði upphaflega að verða myndlistarmaður. Ég fór til Dublin í myndlistarskóla upp úr tvítugu, ætlaði að vera þar einn vetur og fara svo til Parísar og halda áfram námi. En það gerðist tvennt. Mér fór að leiðast að vera bara í myndlist, það nægði mér ekki. Og b – þá var ég ólétt þegar ég fór utan. Þannig að ég hunskaðist heim með skottið milli afturlappanna og baðst ásjár. Þetta var náttúrulega Sif. Stóra stelpan mín.“ Silja segist ekki hafa neina þörf á að skapa eftir að hún drap í sér myndlistarmanninn. Henni er nóg sköpun að sjá aðra skapa, eins og hún orðar það og það má sjá á veggjunum í íbúð hennar - og bókaskápunum.Vísir/Vilhelm Sif Gunnarsdóttir forsetaritari er kennd við eiginmann Silju en hann var þó ekki kominn til sögunnar á þessu stigi málsins. „Þetta var náttúrulega meira en lítið áfall því ég var furðu grandalaus. Pabbinn var gamall vinur minn en hann var ekki eiginmannsefni fyrir mig - og ég ekki eiginkonuefni fyrir hann.“ Silja fór til læknis í Dublin til að fá óléttuna staðfesta og ræða hvað væri hægt að gera. Og verandi í kaþólsku landi var henni bent á að fara annað hvort til London í fóstureyðingu eða gefa barnið til ættleiðingar. „Ég er sjálf gefin. Og þótt ég hafi verið rosalega heppin og átt dásamlega foreldra þá veit ég, þar sem ég kynntist blóðmóður minni, að þetta var alla tíð mikil sorg í lífi hennar. Svo heyrir maður í dag hræðilegar sögur um ættleiðingar á Írlandi og ég fæ bara gæsahúð niður allt bak af skelfingu. Ég slapp við það, ég hef alltaf sloppið helvíti vel.“ Menningaruppeldi í Skeggjabekk Kjörforeldrar Silju voru bændur í Eyjafirði þegar hún fæddist en urðu verkafólk á mölinni, fyrst á Akureyri og svo í Reykjavík. Þar fór Silja í Laugarnesskóla og var í Skeggjabekknum umtalaða. „Skeggi lét mig syngja og performera á sviði og lesa upp. Ég hafði þennan frábæra norðlenska framburð sem Skeggi hafði svo mikla ást á.“ Silja lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík, BA-prófi í íslensku og ensku frá Háskóla Íslands ásamt kandídatsprófi í íslenskum bókmenntum. Menntunin hefur nýst vel til fjölbreyttra starfa, til dæmis þýðingarstarfa. En það voru leikhúsferðirnar með skólanum sem kveiktu óbilandi áhuga Silju á menningunni. Enn í dag skrifar hún leikhúsgagnrýni og gaf út bók með úrvali leikdóma á afmælisdaginn fyrir sig og sína nánustu. Af því tilefni fór hún yfir alla dómana sína, sem hlaupa á hundruðum. Hún segist hafa verið harðari á yngri árum. „En ég er svo hrifnæm að ég verð ekki verulega óvinsæl. Það kemur fyrir að mér leiðast bækur en mér leiðist aldrei í leikhúsinu því þar finnur maður svo vel að fólk er að leggja sig fram, gefa manni eitthvað.“ Silja lék aðeins á háskólaárunum og var hvött til að sækja um í leiklistarskólanum en þá var hún komin með heimili og barn og fannst hún ekki manneskja í þá vegferð. En Gunnar fýraði upp í leikhúsástinni. „Hann hafði óbilandi áhuga á leikhúsinu eftir að hafa hlustað af áfergju á útvarpsleikhúsið í einangrun sveitarinnar – á bæ sem er einna fjærst hafi á Íslandi. Hann var búinn að sverja að þegar hann flytti í bæinn myndi hann fara á allar leiksýningar og hann stóð við það eins og efni leyfðu.“ Blankir bóhemar Eftir að Silja flutti heim frá Dublin með litlu Sif undir belti hóf hún nám í Háskóla Íslands. „Það var góð ákvörðun. Ég var enginn stórkostlegur listamaður. Barnabörnin mín eru miklu betri en ég var nokkurn tíma. Þær eru tvær útskrifaðar úr Listaháskólanum þannig að þetta fer áfram, þetta eyðist ekki, eflist bara.“ Á fyrsta ári í háskólanum kynntist Silja Gunnari. „Honum fannst hann ekki eiginmannsefni fyrir mig, honum fannst hann ómögulegur og var hræddur um að hann yrði aldrei almennileg fyrirvinna,“ segir hún hlæjandi og bætir við að þau hafi bætt hvort annað upp. Hún hafi til dæmis létt hann og opnað félagslega. „Hann hefði aldrei haldið eins mörg partý án mín.“ Silja og Gunnar á brúðkaupsdaginn 29. júlí 1967 Gunnar gekk Sif í föðurstað og svo bættist önnur dóttir við, Sigþrúður, sem hefur alla tíð starfað í bókmenntabransanum og er í dag framkvæmdastjóri Forlagsins. Silja og Gunnar keyptu raðhús í Laugarneshverfinu sem Silja segir að hafi verið alltof dýrt fyrir þau. „Við bara komumst ekki hjá því að kaupa það. Eigandinn vildi ekki selja neinum öðrum. Við vorum tilneydd!“ Það voru ekki miklir peningar milli handanna en Silja segir þau aldrei hafa soltið. „Og þú sérð hvað ég bý vel í dag,“ segir Silja sem er svo ánægð í nýju íbúðinni. „En jú, við vorum skítblönk fram eftir öllu.“ Þau fengu þó tækifæri til að búa í útlöndum vegna starfa Gunnars. „Þá var Gunnar annað hvort að kenna eða í rannsóknarleyfi frá háskólanum. Það er svo hollt að sjá landið sitt úr fjarska. Sjá hvaða kosti það hefur - og hugsanlega einhverja galla.“ Getur ekki verið dauðanum reið Gunnar dó fyrir tæpum fjórum árum, mánuði eftir áttræðisafmæli sitt. „Við héldum mjög skemmtilega veislu. Hann vildi það ekki, sagðist vera gamall karl og hættur að hafa gaman af nokkru.“ En eins og vanalega hlustaði Silja ekki á nei þegar kemur að selskap og stuði. „Og hann skemmti sér svo vel í veislunni. Sagðist ekki hafa vitað að það væri svona gaman að vera áttræður. Mánuði síðar var hann dáinn.“ Silja og Gunnar. Þau kynntust í háskólanum og voru gift í meira en hálfa öld. Samstillt en líka ólík. Bættum hvort annað upp, segir Silja um hjónabandið. Gunnar var búinn að eiga við veikindi og það fór illa í hann að vera veikburða og geta ekki treyst á minnið eins og áður. „Hann vissi allt um Íslandssögu frá örófi alda og þegar hann fór að finna að hann mundi ekki eins vel þá varð hann pirraður. Sem var ekki líkt honum. Hann tók dauðanum glaður. Maður er aldrei viðbúinn en hann var bara svo sáttur að ég gat ekki verið vanþakklát og verið dauðanum reið.“ Gjöfin sem kom út úr óróatíma Hjónabandið varði í 53 ár. Gunnar var gott eiginmannsefni eftir allt saman. En hvað með þriðju dótturina? „Gunnar eignaðist barn með annarri konu árið 1982. Sú stúlka hefur verið algjört yndi, alla tíð. Það var ákveðin lausung í hjónabandinu á þessum tíma. Við vorum búin að vera saman í tíu, fimmtán ár og komin með tvö börn. En það var alveg rosalega mikið að gerast í lífi mínu. Ég var til dæmis mjög upptekin af Samtökum farandverkafólks og var yfir mig heilluð af Tolla Morthens. Ég held ég hafi bara orðið ástfangin af honum. Hann var allt í öllu og ég var ritari samtakanna, þvældist með á fundi um allar trissur og þýddi fyrir erlendu farandverkamennina. Lífið var svo þrungið af viðburðum, byltingin virtist vera á næsta horni og ég var alveg eins og ég veit ekki hvað. Þetta endaði á að Gunnar fór með mig úr landi.“ Systurnar þrjár. Elísabet, Sigþrúður og Sif. Og eftir átta mánaða dvöl í London var Silja orðin rólegri. „En það var óróatími í samfélaginu og í lífi okkar og út úr því kom barn. Ég gat ekki áfellst hann fyrir neitt og barn er alltaf gjöf.“ Silja vissi af barninu frá fæðingu þess en faðernið var ekki gert opinbert fyrr en barnið var tveggja ára. „Gunnar þjáðist fyrir þetta, fannst hann vera platmaður, falskur maður. Svo loks þegar hann var skráður sem faðir barnsins þá létti af honum mörgum kílóum og svo varð ég ástfangin af barninu. Ástfangin af henni Elísabetu.“ Gunnar og Silja ræddu vel stöðuna, bæði hjónabandið og hvernig umgengnin yrði. Þar með var málið útkljáð milli hjónanna. „Gunnar sótti hana einn dag í viku, á miðvikudögum, sem við höldum enn upp á. Miðvikudagar eru fjölskyldumatardagar. Elísabet varð partur af fjölskyldunni og systurnar báðar rosalega skotnar í henni. Í dag á hún þrjá drengi og einn þeirra heitir Aðalsteinn,“ segir Silja stolt á svip. Miðvikudagshópurinn samankominn. Gunnar og Silja, dæturnar, tengdasynir og barnabörnin.Gunnar Freyr Og hún er líka svo stolt af Elísabetu sem er deildarstjóri hjá Barnavernd Reykjavíkur, ljómar upp þegar hún lýsir einstökum hæfileikum hennar á því sviði. „Það var gæfa okkar Gunnars að leysa vel úr þessu en svo er hún Elísabet ekkert venjuleg. Hún er svo mögnuð.“ Kynntist móður sinni fertug Það heyrist að fjölskyldan er dýrmæt og Silja segist eiga óskaplega gott bakland. Dásamlegar dætur, einstaklega væna tengdasyni og yndisleg barnabörn. Samskiptin eru mikil og samveran nærandi. Sjálf átti Silja einn bróður sem foreldrar hennar ættleiddu þegar hún var fimmtán ára. Hann dó einungis tveim árum eftir Gunnari. „Hann hét líka Gunnar. Það liggur við að ég sjái jafn mikið eftir þeim báðum. Hann var svo yndislegur.“ Silja segist hafa verið umkringd mönnum sem hétu Gunnar. Afi hennar hét Gunnar og hér eru hinir tveir sem voru henni svo dýrmætir. Eiginmaðurinn að sjálfsögðu og Gunnar bróðir ásamt eiginkonu hans, Soffíu. Foreldrar Silju gátu ekki eignast börn og voru þau Gunnar mikil óskabörn. Þau voru kjarnafjölskylda í Reykjavík. En úti á landi átti Silja tvær aðrar fjölskyldur, móður megin og föður megin. Þau voru bæði gift öðru fólki og áttu sín börn. En Silja vissi alveg frá því hún var smástelpa að hún væri ættleidd, enda var líffræðilegur faðir Silju bróðir pabba hennar. „Ég kynntist móður minni fertug. Við Gunnar fórum austur á land og vinur minn ákvað að sýna mér ömmu mína sem lifði enn þá. Þar hitti ég Guðrúnu ömmu mína, sem spilaði á harmonikku og var ægilega hress. Þegar ég kom aftur í bæinn hringdi móðir mín í mig, sagðist hafa frétt að ég hefði hitt ömmu og spurði: „Þýðir það þá að þú viljir hitta mig?“ Og ég sagði já.“ Silja í kringum tólf ára aldurinn með kjörforeldrum sínum; Aðalsteini og Valgerði. Gunnar bróðir bættist við þremur árum síðar. Silja átti heilmikil samskipti við móður sína þau ár sem hún átti eftir, sem voru heil fjörutíu. En ertu ekkert krumpuð þarna? „Ég ætti náttúrulega að vera alveg hreint tvöföld af komplexum eftir að hafa verið hafnað sem ungabarni. En það er ekki til. Ég held ég hafi verið agalega heppin. Þau bjuggu úti á landi, móðir mín og maðurinn hennar með sín börn. Ég er ekki viss um að ég hefði farið í menntaskóla ef ég hefði alist upp hjá þeim. Ég hugsaði stundum eftir að ég kynntist henni hvernig líf mitt hefði getað orðið og fannst sennilegast að ég hefði orðið verkalýðshetja á Siglufirði. Sem er alls ekki slæmt hlutskipti. Bara annað.“ Blaðamennskan heillandi Sáttin er áþreifanleg í tali Silju. „Ég hef grætt á öllum mínum áföllum. Allt sem mér hefur fundist hrikalegast og agalegast hefur komið vel út og mér til góða og gagns.“ Sagt er að eftirsjáin komi vegna þess sem maður gerir ekki. Það útskýrir af hverju Silja finnur ekki til eftirsjár. Hún hefur prófað og gert svo margt. Myndlist, leiklist og söng. Hún hefur rýnt í fræðin og skrifað fræðibækur. Þýtt bækur, lesið inn á hljóðbækur. En af öllu þessu finnst henni blaðamennskan hafa passað sér best. „Ég var ritstjóri á Þjóðviljanum í hálft ár, fyrsta konan sem var ritstjóri dagblaðs á Íslandi. Það var bara svo óttalega stuttur tími að það telst varla með. Ég hafði lítinn áhuga á leiðaraskrifum og pólitískt mótandi efni. Ég hafði langmestan áhuga á menningarefni og að taka viðtöl.“ Eftir Þjóðviljareynsluna fór Silja að skrifa gagnrýni í DV og þegar henni var boðið að vera menningarritstjóri var hún ekki lengi að segja já. Og við það starfaði hún í átta ár, 1996-2003. „Og það var bara alveg dásamlegur tími. Þá fór ég virkilega á allar sýningar. Ég fékk ókeypis inn á allt sem er gríðarleg gjöf og maður verður að notfæra sér hana. Ég sá mjög eftir Dagblaðinu þegar það dó. Þetta blað hafði mikinn metnað, sérstaklega meðan Sveinn gaf út og Jónas var ritstjóri.“ Silja skrifaði æsku- og athafnasögu Sveins R. Eyjólfssonar blaðaútgefanda árið 2017. Fyrir utan ferilinn á Þjóðviljanum og DV var Silja um langt skeið ritstjóri Tímarits Máls og menningar. Fáránlegt að hún skrifi textana hans Bubba Silja hefur dýft tánum í nær allar listgreinar en segist algjörlega laus við listamannsdrauma eftir að hún drap í sér myndlistarmanninn. „Mig langar ekkert til að skapa sjálf. Mér er nóg sköpun að horfa á aðra skapa og reyna að segja frá þannig að fleiri frétti af því.“ Og hún leggur sannarlega sitt af mörkum þar. Enn með fjölmörg verkefni, að lesa yfir handrit, skrifa dóma og miðla menningu. „Það er eitt einkenni við mig sem ég held að enginn hafi áttað sig á en sem ég ætla að koma upp um núna. Ég hef áráttu fyrir því að gera gagn. Þetta er náttúrulega svolítið sjúklegt. Ég nýt þess og ef ég fæ á tilfinninguna að ég hafi komið einhverjum að gagni eða gert einhverjum gott þá er það svo fullnægjandi. Að lesa yfir handrit fyrir manneskju, til dæmis, og segja henni hvað hún geti gert betur og sjá svo útkomuna í bókinni síðar.“ Í afmælisveislunni síðustu helgi. Silja hefur verið ritstjóri Bubba Morthens í áratugi og lesið yfir síðustu bækur Hallgríms Helgasonar, auk þess að halda fyrirlestra og námskeið um bækur hans.Hrafnhildur Hafsteinsdóttir Silja áréttar að rithöfundar taki mjög mismunandi mikið mark á henni en að athugasemdir hennar fái þá þó til að hugsa og jafnvel búa til eitthvað nýtt. „Við getum tekið Bubba sem dæmi. Ég spyr hann hvað hann meini með þessari línu eða hvað hann sjái fyrir sér. Ég yrki ekki fyrir hann eða segi honum hvernig hann eigi að orða hlutina. Ég ýti við honum og hann með sinn eilíft skapandi heila býr til nýja mynd eða ljóðlínu.“ Silja hefur verið ritstjóri Bubba í áratugi. Lesið textana hans. En slúðursagan um að hún skrifi hreinlega textana er lífsseig. „Já, ég hef heyrt það og mér finnst það fáránlegt. Ég er svo laus við skáldgáfu að það er beinlínis hlægilegt. En ég hef ofboðslega gaman af því að sjá hvernig hann vinnur úr potinu mínu.“ Sennilega með ADHD Síðustu helgi mætti einmitt Bubbi í afmælisveislu Silju ásamt öðrum góðum gestum og tók að sjálfsögðu lagið. Það var standandi stuð til klukkan þrjú um nóttina. Áttræð er hún. Hvernig getur það staðist? Á meðan viðtalinu stendur skoppar hún um íbúðina, hoppar í dyrasímann að hleypa inn ljósmyndaranum, svo kvik og létt. Líkaminn og andinn í fullu fjöri. Þessar bókahillur hannaði og smíðaði Gunnar handa Silju og voru þær alltaf inni á skrifstofu hennar á Hrísateignum. Nú hafa þær fengið nýjan stað og njóta sín sem aldrei fyrr. Vísir/Vilhelm „Ég er í pilates hjá henni Lóló í World Class því það er svo mikilvægt að halda sér liðugum og léttum á fæti. Hreyfingarnar skipta meira máli en hrukkurnar. Fólk sér ekki hvað ég er rosalega hrukkótt þegar ég hreyfi mig eins og ung manneskja. Horfðu bara á bakið á fólki sem þú labbar á eftir og giskaðu á aldur þess. Þú metur það út frá hreyfingunum. Svo er kannski andlitið ungt sem þú hélst að væri eldri manneskja. Og öfugt.“ En verður þú aldrei löt og langar bara að hanga svolítið og tuða yfir sjónvarpinu? „Nei ég er mjög orkumikil. Ætli ég sé ekki bara með ADHD? Eigum við ekki bara að kenna því um þessa ofurorku?“ spyr hún hlæjandi en bætir svo við: „En þetta er virðulegur aldur. Ég vaknaði í morgun og fann að ég var áttræð og það var bara æðislegt.“ Ekki bíða, gera! Silja er þakklát fyrir heilsuna enda fékk hún að kynnast því að vera tekin úr leik fyrir rúmu ári síðan þegar hún tvíbraut sig á fæti. „Það var agalegt. Ef ég ætti eina ósk þá myndi ég óska þess að það kæmi ekki fyrir aftur. Það var svo óþægilegt. Þó hafði það þær góðu afleiðingar að ég flutti. Braut upp heimili til 56 ára og henti, gaf og losaði mig við óstjórnlegt magn af pappír, bókum og hlutum. Og það var gríðarlegur léttir. Það má segja að jafnvel fótbrotið hafi verið til góðs, eins og öll önnur áföll sem ég hef orðið fyrir.“ Það vantar ekki atorkuna í Silju. Hún þakkar pilates fyrir léttar hreyfingar og veltir fyrir sér hvort hún sé mögulega ofvirk.Vísir/Vilhelm Jákvæð sýn á lífið og lífsgleðin fleytir Silju langt og framtíðinni kvíðir hún ekki, hvorki einveru né einmanaleika „Maður á að vera svolítið djarfur að hringja eða jafnvel banka upp á hjá fólki. Það er alltaf hægt að segjast koma seinna ef maður hittir illa á. Ekki bara bíða. Sitja og bíða og tuða yfir sjónvarpinu. Gera!“
Helgarviðtal Bókmenntir Menning Mest lesið Jólagjafir íslenskra vinnustaða Lífið Jólagjöf ársins er stóllinn sem getur allt nema flogið Lífið Brostnar væntingar á Frostrósum Gagnrýni Besta jólagjöfin að sjá bata foreldranna Lífið Áreittar í sundi fyrir það að vera hinsegin Menning Guðmundur „ofpeppaðist“ og reif sig á kassann Lífið „Í stórgróða“ að eyða jólunum á Tene Lífið Frægir fjölguðu sér árið 2024 Lífið Ellen Margrét og Arnmundur orðin hjón Lífið Smakkaði skötu í fyrsta sinn undir eftirliti sérfræðinga Lífið Fleiri fréttir Jólagjafir íslenskra vinnustaða Jólagjöf ársins er stóllinn sem getur allt nema flogið Besta jólagjöfin að sjá bata foreldranna Smakkaði skötu í fyrsta sinn undir eftirliti sérfræðinga Guðmundur „ofpeppaðist“ og reif sig á kassann Hafi ekki tekið þátt í herferð gegn Lively Einn frægasti krókódíll í heimi allur Myndaveisla: Rauð jól hjá Jökli í Kaleo „Í stórgróða“ að eyða jólunum á Tene Ellen Margrét og Arnmundur orðin hjón Kolféll fyrir Amsterdam og hollenskum strák Límdi fyrir munninn á öllum við borðið „Fyrstu jólin án hans og sætið hans verður tómt“ Stjörnulífið: Bikiníjól og jól í Japan Frægir fundu ástina 2024 „Að horfa upp á ofbeldi er jafn mikið ofbeldi og að verða fyrir því“ Netverjar koma „bomsum“ Ingu á Bessastöðum til varnar Dóttir Elínar Mettu og Sigurðar komin með nafn 107 ára gömul og dansar eins og unglamb Krakkatían: Jólasveinar, stjörnustríð og þjóðsögur Mest skreytta jólahúsið í Hveragerði Blaðasnápurinn Stefán Einar fórnar kampavínskóngstitlinum Hlaupársdagurinn þegar Ölfusá flæddi inn í Selfossbæ Fréttatía vikunnar: Lýðheilsa, ísbúð og álag Frægir fjölguðu sér árið 2024 Forsetinn og viðskiptavinir fengu forsmekk að Vigdísi Fékk bónorð í jólagjöf á tónleikum Paul McCartney Fékk Sigurbjörn Árna til að lýsa óhappi í vinnunni „Það besta, versta og skrýtnasta á árinu“ Eitt fallegasta hús landsins sem Duna Laxness ólst upp í Sjá meira