„Mig langar að gefa lag sem ég og Rosalia sungum saman. Ágóðinn mun renna til baráttunnar gegn sjókvíaeldi á Íslandi. Lagið kemur út í október,“ segir í tilkynningu frá Björk. Hún hefur jafnframt birt stúf úr laginu á Instagram.
Rosalia er heimsfræg spænsk söngkona sem skaust upp á stjörnuhimininn árið 2018. Hún hefur verið ein stærsta stjarna latíntónlistar undanfarin ár.
Eins og Vísir hefur greint frá hefur verið boðað til mótmæla gegn sjókvíaeldi á laugardaginn næstkomandi, þann 7. október. Sjö samtök standa að mótmælunum og segja einfaldlega að það sé nú eða aldrei fyrir villta laxinn.
Síðasti villti lax norðursins muni deyja út ef ekkert er gert
„Ísland hefur stærsta ósnerta svæði Evrópu. Hér á sumrin hafa kindur verið frjálsar í fjöllunum, fuglar flogið yfir þeim og fiskar synt óheft í ám, vötnum og fjörðum,“ segir Björk.
„Þannig að þegar íslenskir og norskir viðskiptamenn fóru að setja upp sjókvíaeldi í meirihlutann af fjörðunum okkar var það rosalegt áfall fyrir þjóðina og hefur orðið að máli málanna í sumar, við skiljum ekki hvernig þeir komust upp með að gera þetta í heilan áratug án neins regluverks eða lagaramma.“
Björk segir þetta hafa haft hryllileg áhrif á allt lífríkið í kring. Hún segir fiskinn í kvíunum þjást við hræðilegar aðstæður, helmingur þeirra sé vanskapaður eða heyrnalaus.
„Þeir hafa byrjað að breyta erfðaefni okkar eigins lax og ef við bregðumst ekki við strax mun síðasti villti lax norðursins deyja út,“ segir Björk.
„Það er enn þá tími til að snúa þessari þróun við! Við skorum á þessi fyrirtæki að draga sig til baka! Við viljum hjálpa til með að setja ný lög og reglur inn í íslenskt lagaumhverfi sem verndar náttúruna!“
Björk segir meirihluta þjóðarinnar fylgjandi þessu. Mótmælin á Austurvölli snúist um að umbreyta vilja fólksins í lög.
Í fyrri útgáfu fréttarinnar gaf fyrirsögnin í skyn að Björk og Rosalia yrðu á Austurvelli á mótmælunum. Það er ekki svo.