Það var aðfaranótt föstudagsins 21. apríl sem pólskur karlmaður fannst látinn á bílastæði við verslunina Fjarðarkaup í Hafnarfirði. Fjórir ungir Íslendingar voru handteknir, þrír karlkyns og ein kvenkyns. Þrjú þeirra voru undir átján ára og því ekki lögráða.
Samkvæmt heimildum fréttastofu kom upp ósætti hjá ungu Íslendingunum fjórum og pólska karlmanninum sem tengdist fíkniefnaneyslu á Íslenska rokkbarnum í nágrenni Fjarðarkaupa. Ósættið breyttist í átök á bílastæði Fjarðarkaupa þar sem piltarnir réðust á Pólverjann. Hann lést af stungusárum.
Farið var fram á gæsluvarðhald yfir öllum fjórum vegna málsins. Elsti pilturinn, sem er orðinn lögráða og virðist af myndbandsupptöku og ákæru hafa haft sig mest í frammi, hefur setið í gæsluvarðhaldi á Hólmsheiði síðan. Sautján ára piltarnir hafa verið vistaðir á Stuðlum en stúlkan var látin laus þremur dögum eftir manndrápið.
Piltarnir eru ákærðir fyrir manndráp en stúlkan fyrir að hafa komið pólska karlmanninum ekki til hjálpar þar sem hann var staddur í lífsháska.
Aðalmeðferð í málinu hófst í Héraðsdómi Reykjaness í gær. Dómari samþykkti að kröfu verjenda ákærðu að þinghald í málinu yrði lokað. Fjölmiðlar geta því ekki fylgst með því sem fram fer og aðilum máls er óheimilt að tjá sig um það sem fram kemur.
Reiknað er með því að aðalmeðferðinni ljúki á morgun. Þá líða líklega um fjórar vikur þar til dómur verður kveðinn upp og almenningur fær skýrari mynd á hörmungarnar í Hafnarfirði.