Eftir að hafa haldið muninu í um það bil þremur mörkum í fyrri hálfleik misstu Valskonur Dunarea Bralia sex mörkum fram úr sér áður en flautað var til hálfleiks. Staðan 14-8 í hálfleik en í þeim seinni tóku heimakonur öll völd á vellinum.
Staðan var fljótlega orðin 21-11 og úrslitin svo gott sem ráðin. Valskonur skoruðu aðeins sex mörk í seinni hálfleik og töpuðu að lokum með 16 marka mun, lokatölur 30-14.
Úrslitin hljóta að teljast nokkur vonbrigði miðað við fyrri leik liðanna hér heima en Dunarea Bralia unnu hann með einu marki, 29-30. Valskonur mættu einfaldlega ofjörlum sínum í dag og eru því úr leik í Evrópudeildinni.
Þórey Anna Ásgeirsdóttir var markahæst Vals með fjögur mörk og Lilja Ágústsdóttir skoraði þrjú.