Dýpri vinátta í kjölfar Eurovision ævintýrisins
„Við kynntumst árið 2020 þegar Zöe var að vinna sem umboðsmaður fyrir hljómsveitina Mezzoforte og ég var stílisti í myndatöku hjá þeim,“ segir Beta og bætir við að þær hafi strax náð vel saman.
„Hægt og rólega fór vinátta okkar að vaxa þangað til að við fórum svo saman á Eurovision. Við höfum alltaf notið þess að vera í kringum hvor aðra en eftir Eurovision varð vináttan en dýpri og nánari. Fyrst við gátum lifað þá reynslu af saman þá getum við lifað allt af,“ segja þær kímnar.
Sama markmiðið
Í kjölfar Eurovision segja þær stöllur að lífið hafi sannarlega þróast og þær hafi breyst mikið sem manneskjur. Þær hafi að lokum ákveðið að setjast niður saman til að ræða hvað þær langaði að gera í tónlistinni. Þá kom í ljós að þær vildu vinna að sama markmiði, sem var að semja tónlist fyrir kvikmyndir, sjónvarp, auglýsingar og leikhús.
„Þegar við áttuðum okkur á því að við vildum sama hlutinn og hvað við erum svipaðar þegar það kemur að smekk í tónsmíði kom ekkert annað til greina en að sameina krafta okkar. Þar sem við búum báðar að mikilli reynslu, báðar menntaðar í tónlist og höfum í mörg ár samið okkar eigin tónlist, þá vissum við að við gætum samið heilmikið af góðu efni sem gæti náð yfir ótal mörg verkefni.“

Vilja alltaf halda í sitt einkenni
Þær byrjuðu því þá og þegar að vinna saman og á nokkrum vikum voru þær komnar með fjölbreytt efni.
„Þrátt fyrir að fara um víðan völl í tónsköpun okkar er alltaf rauður þráður sem einkennir okkar hljóðheim. Þar af leiðandi er auðvelt að heyra hvaða tónverk eru eftir okkur sem er að okkar mati einn af okkar helstu styrkleikum. Við vonumst til að halda í okkar einkenni og á sama tíma ná til breiðs hóps hlustenda.
Það sem gerir samvinnu okkar svo einstaka er þessi samstilling á okkar stílum. Öll okkar fyrri vinna sem hefur nú leitt okkur hingað hjálpar okkur að finna afslappað flæði þar sem við getum hoppað á milli verkefna og skipt þeim á milli okkar.“

Mikilvægt að vinna með konum
Þær segja að tengingin þeirra á milli geri mun auðveldara fyrir að semja saman. Innsæið þeirra skiptir þær miklu máli og þær vilja frekar leyfa því að ráða förinni en að reyna að passa í eitthvað box. Þær ætla einnig að leggja áherslu á frekari samvinnu við aðrar tónlistarkonur.
„Tónlistarbransinn á Íslandi hefur alltaf verið mjög karlægur. Þess vegna finnst okkur báðum svo mikilvægt að taka meðvitaða ákvörðun um að vinna með öðrum konum. Við gætum ekki verið stoltari af því að stíga inn í þetta nýja verkefni sem við sköpuðum saman og við getum ekki beðið eftir að halda áfram þessu stórkostlega ferðalagi.“
Hér má lesa nánar um Dreamfeeder Productions.