NFL Red Zone færir áhorfendum sleitulausa útsendingu frá leikjum NFL deildarinnar á sunnudögum í um það bil sjö klukkustundir án auglýsinga. Þar er sýnt frá öllu því markverðasta sem gerist í öllum leikjum NFL-deildarinnar.
Það er hinn þaulreyndi Scott Hanson sem stýrir NFL Red Zone og sér um að áhorfendur fái allt það helsta sem gerist í leikjum kvöldsins beint í æð.
NFL-deildin fer af stað á nýjan leik aðfaranótt næstkomandi föstudags með leik ríkjandi meistara Kansas City Chiefs og Detroit Lions. Leikurinn hefst á miðnætti og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2.
Líkt og síðustu ár verða tveir NFL-leikir sýndir á sjónvarpsrásum Stöðvar 2 Sport alla sunnudaga í vetur auk allra leikja í úrslitakeppninni eftir áramót, þar með talið Super Bowl 58 sem fer fram þann 11. febrúar næstkomandi í Las Vegas.
Þá mun íslenski umfjöllunarþátturinn Lokasóknin hefja göngu sína á morgun, þriðjudag, með sérstökum upphitunarþætti sem verður sýndur á Stöð 2 Sport 2 klukkan 20.00. Þátturinn er í umsjón Andra Ólafssonar.