Þetta segir Kristín Eir Helgadóttir, ráðgjafi hjá Hagsmunasamtökum heimilanna, en hún segir samtökin fordæma nýjustu stýrivaxtahækkun Seðlabankans og að það séu ekki heimilin á Íslandi sem valdi þenslu.
Forsvarsmenn Seðlabanka Íslands hækkuðu í dag stýrivesti um hálft prósent og eru þeir nú 9,25 prósent. Stýrivextir hafa hækkað fjórtán sinnum í röð.
Sjá einnig: Vaxtahækkanir Seðlabankans ýti undir verðbólgu
Seðlabankastjóri hefur ráðlagt fólki að tala við fjármálafyrirtæki og lánastofnanir en Kristín segir mjög mismunandi hvernig það hafi reynst.
„Hann er í fyrsta lagi að beina fólki að hækka lánin sín að einhverju leyti, sem er ekkert alltaf hægt að gera því fólk stenst ekki alltaf greiðslumat, það er ekki til veðrými og fleira,“ segir Kristín. „Svo er hann í raun að beina fólki beint yfir í verðtryggð lán, sem er heldur ekkert endilega besta lausnin.“
Aðspurð um hvort búast megi við því að fólk eigi á hættu að missa heimili sín segir Kristín svo vera.
„Já, það er alveg klárlega það sem við erum að horfa á. Við erum að horfa á það að fólk er ekki að ráða við þessa auknu greiðslubyrði, hún hefur hækkað alveg gríðarlega, gríðarlega mikið. Á einu ári hafa til að mynda fjörutíu milljóna króna íbúðalán hækkað um tvö hundruð þúsund krónur, í greiðslubyrði á mánuði, og fólk er ekkert að ráða við þetta.“
Kristín segir fólk grípa til þess að taka skammtímaskuldbindingar eins og smálán.
„Það er að fá einhverjar milljónir þarna upp og rúlla því öllu inn á íbúðalánin sín,“ segir Kristín.
Hér að neðan má sjá viðtalið við Kristínu í fréttum Stöðvar 2. Það hefst eftir tvær og hálfa mínútu.