Björgvin Karl kom vægast sagt sterkur inn um helgina þegar hann lék með liði Stokkseyrar í fimmtu deild karla í fótbolta. Leikurinn var á móti Álafossi í A-riðli deildarinnar.
Björgvin Karl skoraði tvö mörk í 4-2 útisigri en leikurinn fór fram á Malbikstöðinni að Varmá í Mosfellsbæ.
Það tók Björgvin aðeins þrettán mínútur að komast á blað en hann jafnaði þá metin í 1-1 eftir að Magnús Már Einarsson, þjálfari meistaraflokks karla hjá Aftureldingu, hafði skorað fyrsta mark leiksins fyrir Álafossliðið.
Björgvin Karl kom síðan Stokkseyri í 3-1 á þriðju mínútu í síðari hálfleiknum.
Björgvin er náttúrulega í betri formi en flestir og lék sér að því að spila níutíu mínútur í fyrsta leik tímabilsins.
Tvö mörk að meðaltali í leik er ekki slæmt hjá BKG en hvort hann taki þátt í fleiri leikjum verður að koma í ljós.
Hann spilaði engan leik í fyrra og einn leik sumarið 2021.
Þetta voru hans fyrstu mörk á Íslandsmótinu síðan sumarið 2003 þegar hann skoraði á móti bæði Kóngunum og Árborg í 4. deild karla.