Caitlin Clark sló rækilega í gegn með Iowa skólanum á síðustu leiktíð og safnaði af sér einstaklingsverðlaunum. Hún var kosinn leikmaður ársins og er nú stórstjarna í bandarískum íþróttum.
Hún vakti líka mikla athygli á kvennakörfunni enda tilþrif hennar oft stórbrotin þar sem hún raðaði niður þristum og gaf frábærar stoðsendingar.
Caitlin Clark var með 27,8 stig, 8,6 stoðsendingar og 7,1 frákast að meðaltali í leik með Iowa liðinu en þetta var hennar næstsíðasta tímabil með liðinu.
Vinsældir Caitlin gerðu það að verkum að ársmiðar seldust strax upp á leiki liðsins á komandi vetri og eftirspurnin var gríðarleg.
Iowa ætlar að nýta sér meðbyrinn með því að færa einn heimaleik kvennakörfuboltaliðsins út á fótboltaleikvang skólans og setja með því nýtt áhorfendamet.
Leikurinn er á móti DePaul háskólanum og fer fram á Kinnick leikvanginum sem tekur 69 þúsund manns í sæti.
Gamla áhorfandametið hjá körfuboltaliði skólans er 29.619 manns fá árinu 2002.