Alls hafa um 1,2 milljónir erlendra farþega farið frá Íslandi um Keflavíkurflugvöll frá áramótum sem nemur 41,9% fjölgun miðað við sama tímabil í fyrra. Fjöldinn það sem af er ári, frá janúar út júlí 2023 er um 94% af brottförum á sama tímabili metárið 2018.
Þetta kemur fram á vef Ferðamálastofu. Brottfarir Íslendinga voru um 70.600 í júlí eða 8,2% fleiri en þær mældust í sama mánuði í fyrra. Frá áramótum hafa brottfarir Íslendinga mælst um 364 þúsund talsins eða 93,5% af því sem þær mældust á sama tímabili árið 2018, sem var metár í ferðum Íslendinga.
Þjóðverjar fylgja langt á eftir
Líkt og fyrr segir voru Bandaríkjamenn stærsta þjóðerni ferðamanna í júlí og voru brottfarir þeirra tæplega 114 þúsund talsins, eða sem nemur 41,3% af heild. Bandaríkjamenn hafa verið stærsta þjóðernið í júlímánuði allt frá árinu 2011. Brottfarir Þjóðverja voru í öðru sæti í júlí síðastliðnum, 22 þúsund talsins eða 8,0% af heild.
Brottfarir Pólverja voru í þriðja sæti eða 7,4% af heild og Frakka í því fjórða (4,9%). Þar á eftir fylgdu Bretar (4,0%), Ítalir (3,1%), Danir (2,8%), Kanadamenn (2,7%), Spánverjar (2,2%) og Hollendingar (1,8%).