Ruggs hafði ekið Chevrolet Corvette bifreið sinni á um 250 km hraða á klukkustund skömmu fyrir áreksturinn en hann mældist með tvöfalt meiri vínanda í blóðinu en lög í Nevada gefa svigrúm fyrir. Hámarkshraðinn í götunni þar sem áreksturinn átti sér stað var 70 km/klst.
Konan sem lést í árekstrinum hét Tina Tintor og var 23 ára. Bíll hennar varð alelda við áreksturinn og lét hún lífið ásamt hundi sínum sem var með henni í bílnum, en Ruggs slapp með minniháttar áverka. Hann hafði játað sök í málinu fyrr á árinu en endanlegur dómur var kveðinn upp í dag.
Ruggs las upp yfirlýsingu í dómsal þar sem hann sagði m.a:
„Ég vil biðja foreldra fröken Tintor innilegrar afsökunar á þeim þjáningum og sorg sem ég hef valdið þeim. Ég á mér enga afsökun.“
Ruggs þótti einn af efnilegri leikmönnum NFL deildarinnar og árið 2020 gerði hann fjögurra ára samning við Las Vegas Raiders. Liðið sagði samningnum upp strax daginn eftir slysið í nóvember 2021.
Ruggs hefur heitið því að beita sér fyrir vitundarvakningu um alvarleika þess að keyra undir áhrifum áfengis og yfir hámarkshraða. Hans bíður nú fangelsisvist til allt að tíu ára en með möguleika á reynslulausn eftir þrjú ár.
