Innlent

Þolin­mæði í um­ferðinni skipti miklu máli á degi sem þessum

Sólrún Dögg Jósefsdóttir og Margrét Björk Jónsdóttir skrifa
Aðalsteinn segir helgina hafa gengið áfallalaust fyrir sig. 
Aðalsteinn segir helgina hafa gengið áfallalaust fyrir sig.  Stöð 2

Verslunarmannahelgin er nú yfirstaðin og ferðalangar keppast við að ná heim til sín. Þrátt fyrir þunga umferð að borginni hefur dagurinn gengið stórslysalaust fyrir sig og lítið hefur verið um óhöpp um helgina, samkvæmt varðstjóra hjá umferðardeild lögreglunnar. 

„Auðvitað er búið að vera mikil umferð á leið í bæinn og til borgarinnar, en slysalaust, stórslysalaust. Eitthvað höfum við verið að grípa inn í vegna hraðaksturs og, eins og við sláumst við á hverju ári, að fólk er ekki með auka hliðarspegla fyrir breiða aftanívagna. En þetta er búið að ganga mjög vel,“ sagði Aðalsteinn Guðmundsson, varðstjóri hjá umferðardeild lögreglunnar, í Kvöldfréttum Stöðvar 2.

Aðspurður segist Aðalsteinn helgina hafa gengið vel fyrir sig. „Hún hefur gengið stóráfallalaust, lítið um óhöpp og ekkert á Suðurlands- og Vesturlandsvegi og við erum ánægð með það.“

„Það má segja að það sé núna sem þetta er að ná hámarki. Fólk er að koma heim eftir skemmtanir helgarinnar og þetta er yfirleitt um kvöldmat sem við sjáum toppinn og svo fer að draga úr,“ segir Aðalsteinn. 

Ertu með einhver skilaboð til ökumanna?

„Bara þetta hefðbundna, sýna þolinmæði og gefa sér góðan tíma. Það skiptir miklu máli á svona dögum þar sem að margir eru á ferðinni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×