Á mótinu er fastur liður að sendinefndir frá hverju landi byggi upp sínar eigin tjaldbúðir og kynni svo land og þjóð fyrir skátum frá öðrum löndum en greinilegt að íslensku þátttakendurnir, sem eru á aldrinum fjórtán til átján ára, taki hlutverki sínu þar alvarlega.
Á ljósmynd sem Bandalag skáta birti á Facebook má sjá þrjá íslenska skáta sitja við borð með handskrifuðu blaði þar sem gestir eru hvattir til að spyrja spurninga um Ísland og reynt að kveikja áhuga þeirra á eyríkinu.
Meðal umræðuefna sem lögð eru til eru íslenski hesturinn, lengsta orðið í íslensku, skrýtin íslensk nöfn, íslenskir frídagar og Íslendingabókar-appið. Það var síðastnefnda umfjöllunarefnið sem vakti athygli Erlings Sigvaldasonar, forseta Ungliðahreyfingar Viðreisnar, en á umræddu blaði er smáforritið einnig kallað „sifjaspellaapp“ (e. incest app).
Ah gott að skátarnir séu duglegir í kynningu á "incest appinu" góða sem allir nota! pic.twitter.com/qYwkjkgrFa
— Erlingur Sigvaldason (hot) (@ellivithit) August 7, 2023
Umtalsefni erlendra fjölmiðla
Líkt og samnefnd vefsíða gerði Íslendingabókar-appið notendum kleift að rekja ættir sínar og kanna skyldleika fólks.
Forritið hefur ítrekað verið gert að umfjöllunarefni erlendra fjölmiðla þar sem staðhæft er að Íslendingar notist reglubundið við það á skemmtanalífinu til að komast hjá því að gilja skyldmenni sín óafvitandi. Árið 2013 fjallaði fréttastofa bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar NBC til að mynda um appið og sagði því ætlað að koma í veg fyrir sifjaspell og að Íslendingar fari óvart út með frændfólki sínu.
Íslendingabókar-appið var upphaflega þróað af Arnari Aðalsteinssyni, Alexander Helgasyni og Hákoni Björnssyni sem voru þá allir nemendur við Háskóla Íslands. Þróun þess hefur verið hætt og er það ekki lengur aðgengilegt.
