Úrskurðurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Greint er frá þessu í tilkynningu frá lögreglunni sem hyggst ekki veita frekari upplýsingar um rannsókn málsins að svo komnu máli.
Fram kom í gær að tveir menn hafi verið handteknir grunaðir um tvö vopnuð rán í Reykjavík og Kópavogi. Óku mennirnir um á vespu og rændu gangandi vegfarendur, að sögn lögreglu.
Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir í samtali við fréttastofu að gæsluvarðhaldsúrskurðurinn tengist meðal annars ránunum sem greint var frá í gær. Hinn maðurinn sem hafi sömuleiðis verið handtekinn í gær hafi verið sleppt lausum í morgun.
Ógnað honum með hníf
Kona sem býr í hverfi 108 greindi frá því í Facebook-hópi íbúa hverfisins í gær að hún hafi verið á göngu með eiginmanni sínum við Bústaðarveg þegar þau mættu tveimur mönnum á vespu á ógnarhraða.
„Við rétt náðum að forða okkur og maðurinn minn kallar á þá að hægja á sér. Þá snarstansa þeir, voru tveir ungir menn, og ganga mjög ógnandi að okkur. Annar dregur upp stóran hníf og ógnar manni mínum með hnífinn á lofti og heimtar verðmæti.“
Fréttin hefur verið uppfærð með upplýsingum frá aðstoðaryfirlögregluþjóni.