Hesseldal er ekki aðeins dönsk landsliðskona heldur hefur hún orðið tvisvar danskur meistari eftir að hún yfirgaf Ísland síðast vorið 2020.
Hesseldal hefur spilað bæði með IK Eos í Svíþjóð og í Ástralíu á þessu ári eftir að hafa yfirgefið AKS Falcon sumarið 2022, þá sem tvöfaldur meistari tvö ár í röð.
„Hesseldal þekkir íslensku deildina eftir að hafa leikið með Skallagrím þar sem hún hjálpaði þeim að verða bikarmeistarar og þá var hún einnig á meðal bestu leikmanna deildarinnar þetta tímabilið,” sagði Rúnar Ingi Erlingsson, þjálfari Njarðvíkur, í viðtali við heimasíðu Njarðvíkur.
Hesseldal var með 17,0 stig, 13,8 fráköst og 4,2 stoðsendingar að meðaltali í leik neð Skallagrími tímabilið 2019-20.
Hesseldal er mjög reyndur leikmaður sem hefur reynt fyrir sér í Danmörku, Portúgal, Íslandi og Svíþjóð eftir að hún lauk háskólanámi.
Hún hefur verið frákastahæsti leikmaður deildarinnar í öllum deildum þar sem hún hefur leikið og var leikmaður ársins í dönsku deildinni 2022 og í tvígang valin besti leikmaður úrslitanna í Danmörku.
Hesseldal er fjórði erlendi leikmaður kvennaliðs Njarðvíkur því áður hafði félagið samið við Tynice Martin frá Bandaríkjunum, Andela Strize frá Króatíu og Ena Viso frá Danmörku.