Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, tilkynnti í júní að hún hefði ákveðið að leggja niður starfsemi sendiráðsins og var Rússum gert að draga úr starfsemi hér á landi. Sú ákvörðun var tekin í ljósi þess að það samræmist ekki forgangsröðun í utanríkisþjónustu Íslands að starfrækja sendiskrifstofu í Moskvu við núverandi aðstæður.
Ákvörðunin felur ekki í sér slit á stjórnmálasambandi ríkjanna. Samkvæmt yfirlýsingu á vef Stjórnarráðsins verður lögð áhersla á að hefja starfsemi í sendiráðinu aftur um leið og aðstæður leyfa.
Árni Þór Sigurðsson, sem gegnt hefur embætti sendiherra Íslands í Moskvu síðustu misserin, kvaddi Moskvu í lok júní.
Mikil spenna hefur verið í samskiptum Rússlands og vesturlanda frá upphafi innrásar Rússlands í Úkraínu í febrúar 2022. Samkvæmt svörum frá utanríkisráðuneytinu hafa sjö verið starfandi í íslenska sendiráðinu í Moskvu - tveir útsendir starfsmenn ráðuneytisins og fimm staðarráðnir starfsmenn. Í rússneska sendiráðinu hafa um tuttugu verið starfandi samkvæmt heimildum fréttastofu.