Þann 8. júlí síðastliðinn kom Askur Bárðdal Laufeyjarson, hundaræktandi, að tíu hundum sínum dauðum á bæ sínum Norðurdal í Breiðdal. Askur hafði skroppið á bæjarhátíð í nokkrar klukkustundir en þegar hann kom til baka lágu hundarnir tíu dauðir í hundagerðinu þar sem hann hafði skilið þá eftir.
Askur bíður eftir niðurstöðu krufninga en grunar að hundunum hafi verið unnið mein. „Þetta er gjörsamlega búið að snúa lífinu á hvolf,“ sagði Askur í samtali við fréttastofu.
Mjög einstakt mál

Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir hjá Matvælastofnun, staðfestir í samtali við Vísi að málið hafi farið á borð MAST en sé nú komið yfir til lögreglu. Krufning hafi farið fram á Keldum, tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði. Þá muni rannsókn leiða í ljós hvort eitrað hafi verið fyrir hundunum, en niðurstöður liggi fyrir eftir nokkrar vikur.
Hún segir málið mjög einstakt og ekki sé fordæmi fyrir því.