Innlent

Mikill kyn­lífs­há­vaði raskaði svefn­friði íbúa

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Lögreglan sinnti nokkuð hefðbundnum störfum í gærvöldi og í nótt.
Lögreglan sinnti nokkuð hefðbundnum störfum í gærvöldi og í nótt. Vísir/Vilhelm

Nóttin hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var nokkuð hefðbundin ef marka má dagbók hennar. Tvær tilkynningar bárust um líkamsárás, nokkrar tilkynningar um innbrot og kvartanir undan hávaða. Ein slík barst vegna kynlífshávaða sem raskaði svefnfriði.

Á svæði lögreglustöðvar eitt var óskað eftir aðstoð lögreglu vegna líkamsárásar í Miðborginni. Þá var óskað eftir aðstoð lögreglu þar sem mögulegt þýfi hafði fundist. Lögregla fór á vettvang og tók munina í sína vörslu.

Lögreglunni barst tilkynning um yfirstandandi innbrot en innbrotsþjófurinn flúði af vettvangi þegar hann varð var við húsráðanda. Lögregla svipaðist um í hverfinu en fann þjófinn ekki. 

Úr öðru húsi barst tilkynning um að ekki fengist svefnfriður vegna mikils kynlífshávaða. Lögregla fór á vettvang og kannaði málið.

Einn ökumaður var handtekinn vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna. Hann var handtekinn og fluttur á lögreglustöð í hefðbundið ferli.

Líkamsárás, þjófnaður og börn án bílbelta

Í úthverfunum var aðeins minna að gera. Á svæði lögreglustöðvar tvö sem nær yfir Hafnarfjörð og Garðabæ var tilkynnt um líkamsárás. Lögregla fór á vettvang og ræddi við brotaþola. Málið er nú í rannsókn.

Lögregla stöðvaði ökumann og kom í ljós að þrjú börn voru í bifreiðinni en ekkert af þeim var í viðeigandi öryggisbúnaði. Ökumaðurinn var sektaður og tilkynning send til Barnaverndar. Einnig barst tilkynning um umferðaróhapp og fór lögregla á vettvang til að kanna það.

Á svæði lögreglustöðvar fjögur sem nær yfir Grafarvog, Grafarholt og Mosfellsbæ var tilkynnt um þjófnað úr verslun þar sem þjófurinn flúði af vettvangi. Lögregla fór á staðinn, ræddi við vitni og er málið nú í rannsókn.

Þá barst lögreglunni einnig tilkynning um eignaspjöll. Lögregla fór á vettvang til að kanna málið en ekki kemur fram hvernig það atvik fór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×