Jens Stoltenberg aðalframkvæmdastjóri NATO sagði leiðtogafundinn í Vilníus sögulegan áður en hann hófst í morgun vegna þeirra viðfangsefna sem lægju fyrir fundinum. Þetta væri einnig fyrsti leiðtogafundurinn eftir að Finnar urðu að fullu meðlimir.
Þá verður Svíum formlega boðin aðild áfundinum eftir að Tyrkir létu af andstöðu sinni í gær. Stoltenberg segir mikinn einhug í stuðningi aðildarríkja NATO við Úkraínu. Það yrði ekki aðeins harmleikur fyrir Úkraínu ef hún tapaði stríðinu, það yrði hættulegt fyrir alla.

„Það yrði hættulegt fyrir okkur vegna þess að þá yrðu skilaboðin til allra leiðtoga valdstjórna að þeir komist upp með að beita hervaldi, brjóta alþjóðalög og gera innrás í önnur ríki. Það myndi auka hættuna íheiminum enn frekar og veikja stöðu okkar," sagði Stoltenberg í morgun.
Hann væri einnig sannfærður um að Svíar yrðu 32. aðildarríkið að NATO eftir að Recep Tayyip Erdogan forseti Tyrklands samþykkti aðildina í gær. Svíar verði því boðnir velkomnir í NATO í dag og yrðu síðan fullgildir meðlimir að lokinni atkvæðagreiðslu í tyrkneska þinginu.

Jake Sullivan talsmaður Hvíta hússins segir að leiðtogarnir muni ræða helstu áskoranir og uppfærslu á varnar- og fælingarmætti NATO með auknum framlögum og viðbragðsgetu hersveita bandalagsins. Þá verði vegvísir að aðild Úkraínu að NATO ræddur.
„Eins og Joe Biden forseti hefur sagt, þá myndi aðild Úkraínu aðbandalaginu á þessum fundi í dag draga NATO inn í stríðið við Rússland. Úkraína þarf einnig að vinna að frekari úrbótum hjá sér áður en til aðildar kemur. En bandalagsþjóðirnar munu senda frá sér skýr og jákvæð merki um aðilda Úkraínu að NATO í framtíðinni," sagði Sullivan talsmaður Hvíta hússins.
Volodymyr Zelensky forseti Úkraínu mun sitja hluta leiðtogafundarins. Í tísti í morgun lýsti hann óánægju sinni með að enginn tímarammi væri settur fram um hvenær Úkraínu verði boðin aðild að NATO. Þetta gæti þýtt að aðild Úkraínu réðist ísamningaviðræðum við Rússa sem muni auka vilja þeirra til áframhaldandi hryðjuverka.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra sækja leiðtogafundinn fyrir Íslands hönd.