Körfubolti

74 ára og fékk meira en tíu milljarða króna samning

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gregg Popovich heldur áfram að þjálfa lið San Antonio Spurs og fær líka mjög vel borgað fyrir það.
Gregg Popovich heldur áfram að þjálfa lið San Antonio Spurs og fær líka mjög vel borgað fyrir það. Getty/Maddie Malhotra

Gregg Popovich er ekkert að fara að hætta á næstunni þótt að hann nálgist áttræðisaldurinn.

San Antonio Spurs tilkynnti um helgina að hinn 74 ára gamli Popovich hafi gengið frá nýjum fimm ára samningi um að þjálfa liðið.

Það sem meira er að Popovich mun fá áttatíu milljónir Bandaríkjadala í laun fyrir þessi fimm ár en það gerir um 10,8 milljarða íslenskra króna.

Þetta er stærri samningur en Monty Williams fékk frá Detroit Pistons fyrr í sumar en hann fær 78,5 milljónir dollara fyrir sex ár.

Popovich sló metið yfir flesta sigurleiki þjálfara í NBA í mars 2022 en það átti áður Don Nelson. Popovich er eins og er með 1366 sigurleiki og 761 tapleiki á ferilskrá sinni í NBA.

Hann er einnig í þriðja sæti yfir flesta sigurleiki í úrslitakeppni en þar hefur hann stýrt Spurs liðinu til sigurs í 170 leikjum.

Popovich er einnig starfandi yfirmaður körfuboltamála hjá félaginu og því í raun yfirmaður hjá sér sjálfum.

Það gæti farið svo að hann haldi því starfi áfram þótt að hann hætti að þjálfa Spurs áður en þessu fimm ár eru liðin.

Gregg Popovich hefur þjálfað San Antonio Spurs frá árinu 1996 og undir hans stjórn varð liðið fimm sinnum NBA meistari eða árin 1999, 2003, 2005, 2007 og 2014.

Nú fær hann það verkefni að byggja upp nýtt meistaralið í kringum franska undrabarnið Victor Wembanyama sem sumir segja að sé eitt mesta efni sem hefur komið inn í NBA-deildina.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×