Sveinn Kristján Rúnarsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn segir hátíðirnar hafa gengið vel fyrir sig og ekkert alvarlegt hafi komið upp. Engar tilkynningar hafi borist um alvarlegt ofbeldi og engin alvarleg slys hafi orðið á fólki. Þá hefur hann ekki heyrt af neinu kynferðislegu ofbeldi en segir þær tilkynningar þó oft berast eftir helgina.
„Þetta hefur gengið að mestu nokkuð vel. Búið að vera mikil umferð um allt svæðið, en sérstaklega vestanmegin í kringum Selfoss og uppsveitum Árnessýslu en hefur að mestu gengið vel. Við fengum auðvitað hörmulegt umferðarslys á föstudaginn en að öðru leyti hefur þetta gengið vel,“ segir Sveinn Kristján.
Hann segir rannsókn á tildrögum banaslyssins ganga vel. Rannsóknin sé á frumstigum en um var að ræða bifhjólaslys. Sá látni var karlmaður á miðjum aldri.
Hvað varðar daginn í dag segir Sveinn mikilvægt að gefa sér góðan tíma í heimferð og að ekki eigi að ana að keyrslu hafi fólk verið að drekka áfengi kvöldið áður.
„Ef fólk er búið að vera að fá sér áfengi um helgina er mikilvægt að bíða þar til það er runnið af þeim og gefa sér lengri tíma en styttri til að koma heim. Það er mikilvægt að gefa sér góðan tíma í heimferðina. Það verða umferðarteppur á Suðurlandsvegi í allan dag og umferðin er þung. Um að gera að gefa sér góðan tíma og vera slakur í umferðinni. Við komumst öll heim fyrir rest og það er miklu betra að gefa sér góðan tíma heldur en að vera í stressi.“
Hann segir að lögreglan verði með umferðareftirlit í öllu umdæminu. Það sé aukamannskapur sem aðstoðar. Það sé hægt að aka Þrengslin og um Eyrarbakkaveg líka.