Enski boltinn

Stelur Juventus Luka­ku af erki­fjendunum?

Smári Jökull Jónsson skrifar
Það virðist í lausu lofti hvar Romelu Lukaku mun spila á næstu leiktíð.
Það virðist í lausu lofti hvar Romelu Lukaku mun spila á næstu leiktíð. Vísir/Getty

Fyrr í dag bárust fréttir af því að Chelsea og Inter hafi náð samkomulagi um kaupverð síðarnefnda liðsins á Romelu Lukaku. Nú greinir The Athletic hins vegar frá því að Lukaku gæti endað hjá erkifjendum Inter.

Romelu Lukaku hefur verið orðaður við Inter síðustu vikurnar en hann var hjá félaginu á láni frá Chelsea á síðustu leiktíð. Lukaku sjálfur hefur sagt að hann vilji fara til Mílanóliðsins sem komst alla leið í úrslit Meistaradeildarinnar á tímabilinu.

Sádíarabíska félagið Al-Hilal hefur einnig sýnt Lukaku áhuga en í morgun bárust nokkur óvæntar fréttir þess efnis að stórlið Juventus hefði sett sig í samband við Chelsea varðandi Lukaku.

The Athletic greinir frá því að Juventus hafi lagt fram tilboð en ekki kemur fram hversu hátt það sé. Gazetto Della Sport hafði áður greint frá því í morgun að Chelsea og Inter hefðu náð samkomulagi um 30 milljón evra kaupverð fyrir Belgann.

Eins og áður segir var Lukaku á láni hjá Inter á síðustu leiktíð en hann spilaði einnig fyrir félagið á árunum 2019-2021. Hann skoraði 14 mörk í 37 leikjum á leiktíðinni en hann er með samning við Chelsea þar til sumarið 2026.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×