Körfubolti

Kobe verður á kápunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kobe Bryant spilaði allan sinn NBA feril með liði Los Angeles Lakers og varð fimm sinnum NBA-meistari með liðinu.
Kobe Bryant spilaði allan sinn NBA feril með liði Los Angeles Lakers og varð fimm sinnum NBA-meistari með liðinu. Getty/Ronald Martinez

Heiðurshallarmeðlimurinn Kobe Bryant verður á forsíðu á nýju útgáfu NBA körfubolta tölvuleiksins NBA 2K en útgefendur leiksins tilkynntu þetta í gær.

Það kom líka fram á miðlum fyrirtækisins að í raun verða tvær kápur í boði því leikurinn kemur út í tveimur útgáfum.

Kobe mun prýða báðar forsíður beggja útgáfa sem heita upp á ensku „the Kobe Bryant Edition“ og „the Black Mamba Edition“.

Fyrirtækið er að halda upp á 25 ára afmæli leiksins og vildi gera það með því að heiðra einn vinsælasta körfuboltamann heims á þessum aldarfjórðungi. Leikurinn er og hefur verið gríðarlega vinsæll.

Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem Kobe prýðir kápu leiksins því hann er að gera það nú í fjórða sinn.

Þar er talið með 2K21 útgáfan en Bryant var á forsíðunni á sérstakri Mamba Forever útgáfu sem var gefin út nokkrum mánuðum eftir að Kobe fórst ásamt dóttur sinni Giönnu og sjö öðrum í þyrluslysi í janúar 2020.

Kobe Bryant varð fimm sinnum NBA meistari með Los Angeles Lakers en hann spilaði í tuttugu ár með félaginu áður en hann setti skóna upp á hillu árið 2016. Kobe var einu sinni valinn bestur í deildinni (2007-08) en hann er í fjórða sæti yfir flest skoruð stig í sögu NBA með alls 33.643 stig. Hann var tekinn inn Heiðurshöll Naismith árið 2020.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×