Hollenska veðurstofan hefur gefið frá sér rauða viðvörun vegna stormsins sem fer nú yfir höfuðborgina Amsterdam og Noord-Holland svæðið. Íbúar hafa verið beðnir um að halda sig heima á meðan stormurinn gengur yfir og fengið neyðarviðvaranir í gegnum farsíma.
Í umfjöllun Reuters kemur fram að stormurinn, sem heitir Poly, sé einn sá mesti sem sést hefur yfir sumarmánuðina í landinu. Hann er auk þess sá mesti sem farið hefur yfir landið síðan í janúar árið 2018.

Fárviðri ganga venjulega yfir landið á milli október og apríl en síðast reið stormur yfir landið að sumartíma árið 2015. Var sá sá fyrsti að sumri til í heila öld. Veðurstofa landsins býst við að hann muni ganga niður nú síðdegis.
Tveir hafa slasast í Amsterdam þar sem tré féllu á bíla þeirra. Þá hefur fleiri en 300 flugferðum verið aflýst á alþjóðaflugvellinum Schiphol auk þess sem lestarferðum í norðurhluta landsins hefur verið aflýst.


