Í fréttum Stöðvar 2 var nyrsta byggð Íslands heimsótt. Sjá mátti kríugerið forða sér af flugbrautinni þegar flugvél Norlandair kom inn til lendingar. Vélin var að koma frá Akureyri, fullsetin nítján farþegum af skemmtiferðaskipi. Við flugstöðina var einnig vél frá Circle Air, sem kom með sex ferðamenn.

Í hópi þeirra sem sinna ferðamönnum í eynni er Halla Ingólfsdóttir. Hún segist bjóða upp á leiðsögn, bátsferðir, snorkel og gistingu og leigja út níu herbergi. En hvað er það sem helst dregur ferðamenn út í Grímsey?

„Það er að sjálfsögðu lundinn og fuglalífið og heimskautsbaugurinn að sjálfsögðu. Svo vil ég nú meina að við séum alveg hrikalega skemmtilegt samfélag. Það eru margir sem koma aftur, bara út af okkur,“ segir ferðaþjónustubóndinn Halla og tekur fram að atvinnuljósmyndarar hafi verið áberandi.

En hvað með íslenska ferðamenn?
„Það hefur aukist með Íslendingana. En það er bara nýlega skeð. Áður fyrr voru þetta bara 99 prósent útlendingar sem komu. En ég sé skemmtilega aukningu af Íslendingum.“

Hún segir tímabilið stutt og júlímánuður á næsta ári sé nánast orðinn fullbókaður.
„Fyrir covid þá var orðinn ferðamaður hérna liggur við nánast í hverri einustu viku, á veturna líka. Og það var alltaf að fjölga. Svo kemur þetta leiðinda tímabil þarna. En mér finnst að þetta sé að taka hressilega við sér aftur. Ég hef alveg fulla trú á því að það sé hægt að gera þetta yfir veturinn líka.“

„En það er náttúrlega bara eins og ég hef oft sagt: Þetta snýst allt um samgöngur til og frá eyjunni. Þetta snýst algjörlega og allt um það,“ segir Halla Ingólfsdóttir, ferðaþjónustubóndi í Grímsey.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: