Kristmundur gaf út lagið Popstar á dögunum sem markar tímamótin í lífi Kristmundar. Myndbandið við lagið Popstar var frumflutt á skemmtistaðnum Lúx í gærkvöldi.
„Lagið er birtingarmynd togstreitunnar sem ég lifði við þegar ég starfaði sem iðnaðarmaður og ferðalagsins í átt að poppstjörnudraumnum. Ég var oft annars hugar þegar ég var að mála og notaði pensilinn oft sem míkrófón, sónaði út og ímyndaði mér að vera fyrir framan hundrað þúsund manns á tónleikum,“ segir Kristmundur sem var kominn nærri draumnum áður en hann fór út af sporinu.
„Ég fékk í rauninni nóg einn daginn eftir að eftirlitsmaður kom þar sem ég var að mála og setti út á alla vinnuna. Hann hafði samt örugglega alveg rétt fyrir sér,“ segir Kristmundur.
Lykillinn að hafa trú á sjálfum sér
Kristmundur öðlaðist þá kjark til að sinna tónlistinni sem hann segist lifa fyrir. „Lykillinn er bara að hafa trú á sjálfum sér og láta fokking vaða, án gríns. Það er málið.“
Hann segir nýja lagið vera ákveðið framhald á endurkomu sinni sem hófst í vor. Þá gaf hann út lagið Adrenalín og Ég er en það síðarnefnda gerði hann ásamt vini sínum, tónlistarmanninum Júlí Heiðari. Þeir stigu einmitt saman fram á sjónarsviðið þegar þeir unnu Söngvakeppni framhaldsskólanna árið 2010.
Hissa á að Jón Gnarr væri til
Í kjölfarið fór boltinn að rúlla. Kristmundur og kvikmyndatökumaðurinn Aron Ingi Davíðsson leiddu saman hesta sína í myndbandinu við lagið.
„Mig langað að gefa hlustendum sem skýrasta mynd á ferlinu að draumnum og þurfti einhvern sem myndi negla týpuna sem erfiður eftirlitsmaður. Ég ákvað að prófa að heyra í Jóni Gnarr sem sló til og var algjör negla. Ég var bara hissa að hann væri til í þetta með mér,“ segir Kristmundur sem er ánægður með afraksturinn.
Hann ber Jóni góða söguna:
„Jón Gnarr er algjör fagmaður og ein mesta perla sem ég hef kynnst. Hann er svo jákvæður og með þægilega nærveru sem mætti á svæðið með bros á vör. Fólk ber svo mikla virðingu fyrir honum, þegar hann labbaði inn sá maður hvernig kjálkarnir duttu í jörðina.“