Páll hefur verið afar gagnrýninn á framkvæmd útboðsins alveg frá upphafi en nokkrum vikum eftir útboðið skrifaði hann færslu á Facebook sem fór sem eldur í sinu þar sem hann finnur að því að afsláttur af skráðu dagslokagengi hlutabréfa í Íslandsbanka hafi verið gefinn í hlutafjárútboðinu eða því sem nemur rúmum fjórum prósentum.
„Þetta svo sem sýnir það sem ég og ýmsir fleiri héldum fram í upphafi að þetta útboð er klúður og það er eiginlega alveg sama hvar á það er litið. Þetta kom fram strax í upphafi að þetta var siðlítið, ósiðlegt,“ sagði Páll í viðtalinu í morgun.
Þar sagði hann að útboðið hafi bæði verið ósiðlegt og að almenningur hafi ekki fengið hámarksverð fyrir sinn hlut. Skýrsla FME sýni þá ofan á allt að lögbrot hafi verið framin við framkvæmdina.
Páll sagði þá að ábyrgðarkeðjan sé skýr,
„Þetta er þannig að Alþingi, fyrir hönd þjóðarinnar, felur fjármálaráðherra í lögum að framkvæma þessa sölu. Hann hefur endanlegt ákvörðunarvald um söluferlið. Og þar sem endanlegt ákvörðunarvald liggur, þar liggur líka endanleg ábyrgð.“
Fjármálaráðherra beri ábyrgð á því hverja hann veldi til verksins og þá endanlega pólitíska ábyrgð gagnvart þingi og þjóð.
Snærós Sindradóttir, annar tveggja þáttastjórnenda Morgunútvarpsins, innti Pál eftir skýrari svörum og spurði hreint út hvort Páll væri með orðum sínum að kalla eftir því að fjármálaráðherra stígi til hliðar.
Páll svaraði því til að menn geti axlað sína ábyrgð með ýmsum hætti.
„Það er kannski meginatriði að menn skilji hana sjálfir og viðurkenni hana og séu ekki svona einhvern veginn að ýta þessu öllu frá sér. Ég er ekkert að kalla eftir því. Auðvitað verður fjármálaráðherra bara að gera það upp við sjálfan sig hvar hann hefur misstigið sig í þessu máli og hvort það sé þess eðlis að hann þurfi að hugsa sinn gang, en ég er ekkert endilega að segja að það sé hin eðlilega eða rökrétta leið í þessu,“ segir Páll og bætir við að það sé aftur á móti „hvellskýrt“ í hans huga að ábyrgðin sé hjá fjármálaráðherra.