Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reiðskóla Reykjavíkur. Halla Ingibjörg Leonhardsdóttir, móðir hinnar níu ára gömlu stúlku sagði í samtali við Vísi í gær að hún myndi ekki láta málið kyrrt liggja. Sagði hún starfsmenn skólans hafa komið af fjöllum í gær og tjáð vinkonu hennar að móðir mannsins hefði hvorki látið vita af meintum brotum mannsins í Reykjadal síðasta sumar né að málið væri á ákærusviði.
Hafi aldrei verið einn með nemendum
Í tilkynningu reiðskólans segir að forsvarsmenn hans hafi fengið upplýsingar um að maðurinn hefði verið sakaður um kynferðisbrot. Hann hefði aldrei verið starfsmaður hjá skólanum heldur fyrir greiðasemi fengið að aðstoða í hesthúsunum eftir hádegi.
„Á þeim tíma var hann aldrei að hjálpa til við reiðnámskeiðin, né var hann einn með nemendum eða eftirlitslaus í húsunum vegna fötlunar sinnar.“
Segir í tilkynningunni að upplýsingar um að maðurinn lægi undir grun um kynferðisbrot hafi komið þeim fullkomlega í opna skjöldu. Brugðist hafi verið við samdægurs og því muni maðurinn ekki koma nálægt reiðskólanum framar né aðstoða í hesthúsum reiðskólans. Foreldrum nemenda sem eru á reiðnámskeiði hafi verið látnir vita af málinu.
„Við hörmum að þessar aðstæður hafi komið upp og höfum þegar brugðist við til að tryggja öryggi barnanna, sem er aðalatriðið í okkar augum. Við munum tilkynna Barnavernd Reykjavíkur og lögreglunni um málið.“