Enski boltinn

76 ára gamall og heldur áfram í ensku úrvalsdeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Roy Hodgson gerbreytti öllu hjá Crystal Palace þegar hann tók við liðinu í mars.
 Roy Hodgson gerbreytti öllu hjá Crystal Palace þegar hann tók við liðinu í mars. Getty/Tom Dulat

Roy Hodgson hefur samþykkt það að halda áfram sem knattspyrnustjóri Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni.

Hodgson tók við Palace liðinu í mars og tók þá við eftir að félagið hafði rekið Patrick Vieira.

Undir stjórn Vieira hafði Palace ekki unnið í tólf leikjum og ekkert annað en fall blasti við.

Crystal Palace var því í slæmum málum í fallbaráttunni þegar hann tók við en liðið náði í átján stig í síðustu tíu leikjum sínum og endaði í ellefta sæti.

Hinn 75 ára gamli Hodgson er staddur í fríi en Sky Sports og breska ríkisútvarpið segir frá því að hann sé búinn að ganga frá því að halda áfram með liðið. Hann er fæddur 9. ágúst 1947 og verður því 76 ára gamall í haust.

Palace er æskufélag Hodgson en hann var knattspyrnustjóri Crystal Palace í fjögur ár frá árinu 2017 en ákvað að hætta með liðið 2021.

Hann tók við Watford í janúar 2022 en tókst ekki að bjarga liðinu frá falli og hætti eftir fimm mánuði.

Þjálfaraferill Roy Hodgson spannar nú 47 ár en hann hefur á þeim tíma stýrt liðum eins og Inter Milan, Blackburn, Fulham, Liverpool, West Brom and Palace auk þess að vera landsliðsþjálfari Englands, Sviss, Sameinuðu arabísku furstadæmanna og Finnlands. Alls hefur hann stýrt 22 liðum í átta mismunandi löndum.

Fyrsta starfið var hjá Halmstads BK í Svíþjóð árið 1976. Það héldu kannski margir að enska landsliðsþjálfarastarfið yrði það síðasta hjá honum eftir að Ísland vann England í sextán liða úrslitum EM 2016 en svo var alls ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×