Enski boltinn

„Draumur að rætast að fara til Englands og spila þar“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Arnór Sigurðsson leikur á Englandi á næstu leiktíð.
Arnór Sigurðsson leikur á Englandi á næstu leiktíð. Vísir/Stöð 2

Arnór Sigurðsson skrifaði í gær undir samning við Blackburn Rovers í ensku Championship deildinni. Svava Kristín hitti hann að máli í dag og ræddi við hann um félagaskiptin.

Arnór Sigurðsson er að upplifa drauminn sem knattspyrnumaður að fá að spila á Englandi, en hann skrifaði undir eins árs lánssamning við Blackburn Rovers í gær. Möguleiki er á að samningurinn verði framlengdur að tímabilinu loknu.

„Þetta er mjög spennandi, það er draumur að rætast að fara til Englands og spila þar. Ég er gríðarlega spenntur að byrja þetta,“ sagði Arnór þegar Svava Kristín hitti hann að máli á Akranesi í dag en þar er Arnór fæddur og uppalinn.

Blackburn Rovers á sér ríka sögu í efstu deildum Englands en liðið hefur verið í næst efstu deild síðasta áratuginn. Liðið endaði í sjöunda sæti á síðustu leiktíð en Arnór segir félagið horfa til ensku úrvalsdeildarinnar á næstu árum.

„Ég talaði aðeins við Jóa Berg [Jóhann Berg Guðmundsson, leikmann Burnley] og hann sagði mér svolítið frá hvernig deildin er. Hann sagði að það væri engin spurning að spila á Englandi og að spila í þessari deild er bara geggjað.“

Arnór segir forráðamenn Blackburn stefna á ensku úrvalsdeildina.

„Það hafa aldrei verið jafn mörg lið í Championship sem stefna á að fara upp í efstu deild eins og núna og Blackburn er eitt af þeim. Þeir spila mjög flottan fótbolta, halda boltanum og stjórna leikjum. Ég fann það strax í gær þegar ég hitti alla í kringum liðið að það er mjög mikil stemmning og allir peppaðir að fara inn í tímabilið,“ bætti Arnór við.

Allt viðtal Svövu Kristínar við Arnór má sjá í spilaranum hér fyrir neðan en þar ræðir hann meðal annars veru sína hjá Norrköping í Svíþjóð sem og leiki íslenska landsliðsins gegn Slóvakíu og Portúgal.

Klippa: Viðtal við Arnór Sigurðsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×