Sjötta útgáfa Norrænu næringarráðlegginganna kemur út í dag en um er að ræða umfangsmesta vísindalega grunn í heimi hvað varðar heilnæmt matarræði, bæði fyrir heilsu manna og umhverfið.
Sérfræðingar skoðuðu meðal annars áhrif fimmtán matvælaflokka og 36 næringarefna á heilsu manna.
„Lagt er til mataræði sem að mestu er sótt í jurtaríkið og samanstendur af miklu grænmeti, ávöxtum, berjum, baunum, kartöflum og heilkorni.
Mælt er með mikilli neyslu á fiski og hnetum, hóflegri neyslu á mjólkurvörum sem innihalda litla fitu, takmarkaðri neyslu á rauðu og hvítu kjöti og sem minnstri neyslu á unnum kjötvörum, áfengi og unninni matvöru sem inniheldur mikla fitu, salt og sykur,“ segir í fréttatilkynningu um ráðleggingarnar.
Að sögn Karen Ellemann, framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar, sem gefur skýrsluna út, verður hún meðal annars lögð til grundvallar þegar yfirvöld á Norðurlöndunum ákveða matseðla skóla, sjúkrahúsa og annarra mötuneyta á vegum hins opinbera.
Nokkrar breytingar verða frá fyrri útgáfu, til að mynda á viðmiðunarmörkum níu næringarefna; E-vítamíns, B6-vítamíns, fólats, B12-vítamíns, C-vítamíns, kalsíns, sinks og selens.
Fólki er ráðlagt að forðast alfarið neyslu áfengis, takmarka neyslu á rauðu kjöti við 350 grömm á viku af heilsufarsástæðum og enn frekar af umhverfisástæðum. Þá ber að halda neyslu unnina kjötvara í lágmarki og neyta 300 til 450 gramma af fiski á viku.
Fólk ætti að borða að minnsta kosti 90 grömm af heilkorni á dag og borða meira af baunum.