Umræðan um kjúklingabringur frá Úkraínu hefur verið mjög hávær síðustu daga en málið endaði þó þannig að meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis ákvað að leggja ekki fram frumvarp um að framlengja ákvæði um tollfrjálsan innflutning á landbúnaðarvörum frá Úkraínu og þar með kjúkling og því verður ekki um frekari innflutning að ræða.
Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtakanna segist skilja vel þá háværu umræðu, sem hefur átt sér stað í þjóðfélaginu síðustu daga.
„Já, ég skil alveg að þetta hafi verið til mikillar skoðunar og mikið til umræðu þessa síðustu daga þingsins,“ segir Vigdís og bætir við.
„Ég held að við verðum að horfa á það að alifuglaræktendur hafa tekist á við gríðarlegar skuldbindingar, bæði í fjárfestingu á húsakosti og vinnuafli, starfsfólki, fóðri og við verðum að hafa í huga að fóður er 60 til 65 prósent af rekstrarkostnaði alifuglabúa hér á landi. Það verður að horfa í þessar tölur. Ætlum við að halda í landbúnaðarframleiðslu hér á landi, á hún að vera samkeppnishæf gagnvart innflutningi þar sem er verið að keppa við verð, sem eru í rauninni helmingi undir því, sem kostar að framleiða vöruna hér á landi. Ég held að við verðum að horfa á það með þessum hætti. Það mætti horfa til annarra aðgerða að sjálfsögðu til að styðja við Úkraínu.“
