Jóhann Skagfjörð, skólastjóri Garðaskóla segist ekki kannast við beinar hótanir foreldra en segir það hafa færst í aukana að foreldrar hafi samband til að fá rökstuðning á einkunnagjöf barna sinna. Hann segir það sjálfsagt að fara yfir málin með foreldrum en telur þetta þó aukinn streituvald fyrir kennara og stjórnendur í skólum.
Skólastjóri í Hafnarfirði sagði í fréttum RÚV í gær að hann hafi heyrt af foreldrum sem hóta kennurum vegna einkunna barna sinna sem eru að ljúka grunnskóla og á leið í framhaldsskóla.
Nokkur ár eru síðan einkunnagjöf var breytt og farið frá tölustöfum í bókstafi. Jóhann segir að horft sé til hæfni nemenda og að baki hvers verkefnis séu ólík hæfniviðmið og misjafnt hversu mörg eru að baki hverju verkefni. Hann segir að mögulega séu foreldrar enn að læra á þetta og hvernig það virki.
„Kennarar, við erum fagstétt og erum stolt af okkar starfi og leggjum metnað í það og viljuð auðvitað að okkar fagmennska sé í fyrirrúmi að hún sé ekki dregin í efa. Við reynum svo sannarlega að hjálpa þeim eins mikið og við getum og gefum þeim eins hátt og við getum, en við verðum að vera fagleg,“ segir Jóhann.
Ekki allir sáttir
Hann segir að í skólanum hafi útskrifast í gær um 200 nemendur og að foreldrar einhverra hafi haft samband vegna einkunna. Flestir séu sáttir,en það séu það ekki allir. Hann segir að það hafi komið fyrir að mistök hafi verið gerð og of lágar einkunnir gefnar og að það hafi ávallt verið lagað þegar það hefur komið í ljós.
„Það er sjálfsagt að við séum spurð út í og að foreldra og nemendur fái rökstuðning á einkunnagjöf,“ segir Jóhann og að eins sé jákvætt að bæði nemendur og foreldrar hafi samband. En að á sama tíma geti þessu fylgt tilfinning um vantraust sem sé ekki góð tilfinning.
„Þetta er líka aukið álag.“