Körfubolti

Sagan skrifuð þegar Denver náði aftur forystunni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jamal Murray og Nikola Jokic skrifuðu sig í sögubækur NBA í nótt.
Jamal Murray og Nikola Jokic skrifuðu sig í sögubækur NBA í nótt. getty/Megan Briggs

Tveir leikmenn Denver Nuggets voru með þrefalda tvennu þegar liðið vann Miami Heat, 94-109, í þriðja leik liðanna í úrslitum NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt. Denver leiðir einvígið, 2-1.

Nikola Jokic og Jamal Murray voru báðir með þrefalda tvennu í leiknum í nótt. Murray skoraði 34 stig, tók tíu fráköst og gaf tíu stoðsendingar. Jokic var með 32 stig, 21 frákast og tíu stoðsendingar. Þetta er í fyrsta sinn í sögu NBA sem tveir leikmenn með þrjátíu stig eða meira eru með þrefalda tvennu í leik.

Denver var sterkari aðilinn undir körfunni og vann frákastabaráttuna, 58-33. Jokic og Murray tóku samtals 31 frákast, tveimur minna en allt lið Miami.

Jimmy Butler skoraði 28 stig fyrir Miami og Bam Adebayo var með 22 stig og sautján fráköst. Þeir fengu hins vegar litla hjálp.

Denver fékk óvænt framlag frá Christian Braun en hann skoraði fimmtán stig af bekknum. Aaron Gordon var svo með ellefu stig.

Fjórði leikur liðanna fer fram í Miami aðfaranótt laugardags.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×