Það var Jamal Murray, leikmaður Denver Nuggets, sem reyndist hetja liðsins í öðrum leiknum gegn Los Angeles Lakers, þrátt fyrir ekkert sérstaka fyrstu þrjá leikhluta hjá honum.
Murray setti niður 14 stig í fyrstu þremur leikhlutunum en það var í þeim fjórða sem hann hrökk í annan gír og setti niður 23 stig. Þá tók hann einnig niður 10 fráköst í leiknum, gaf fimm stoðsendingar og átti fjóra stolna bolta.
Lakers höfðu verið 11 stigum yfir í þriðja leikhluta en Denver setti niður 20 af fyrstu 25 stigum fjórða leikhlutans og tryggðu sér að lokum afar mikilvægan sigur.
Aðrir atkvæðamiklir leikmenn í leiknum voru þeir Nikola Jokic leikmaður Denver, með 23 stig, 17 fráköst og 12 stoðsendingar og Lebron James leikmaður Lakers með 22 stig, 9 fráköst og 10 stoðsendingar.
Liðin halda nú til Los Angeles og mætast í þriðja sinn aðfaranótt sunnudags á Crypto.com leikvanginum.