„Við ætlum okkur að gera betur í þessu,“ sagði Katrín en hún vildi ekki fara nánar út í það að svo stöddu þegar Heimir Már Pétursson ræddi við hana í Helsinki í Finnlandi í dag.
Katrín hafði þá lokið fundi með leiðtogum Norðurlanda og Vólódímír Selenskí, forseta Úkraínu, sem mætti óvænt til Finnlands í dag.
„Fyrst og fremst er ætlunin að ítreka stuðning Norðurlanda við Úkraínu og það var svo sannarlega gert á þessum fundi og öll ríkin hafa lagt sitt af mörkum til Úkraínu,“ sagði Katrín um fundinn með Selenskí.
Katrín segir að meðal annars hafi einnig verið rætt um þær friðartillögur sem Úkraínumenn hafa lagt fram, sem miði að því hvernig tryggja megi réttlátan frið.
„Það er að segja frið sem byggir ekki á því að annað ríki geti ruðst inn og kúgað hitt,“ sagði Katrín. Hún sagði að hluti af þessum tillögum yrði ræddur á leiðtogafundinum. Sá fundur var einnig ræddur í Helsinki í dag, hvað liggi fyrir á honum og hvað annað sé hægt að ræða þar.
„Norrænt samtal“
Katrín sagði að Norðurlöndin sem heild vera stærri en þegar ríkin væru lögð saman eitt og eitt. Því væru fundir sem þessi mjög mikilvægir.
„Við auðvitað tölum fyrir ákveðnum grunngildum, Norðurlöndin, þannig að ég held að það skipti verulega miklu máli að eiga svona fund,“ sagði Katrín. „Við höfum verið mjög samstillt í okkar aðgerðum, þó aðstæður í hverju landi séu misjafnar og mér fannst samtalið á þessum fundi frjálslegt.“
Hún sagði samtalið á fyrri fundinum í dag hafa verið „mjög norrænt“ og að ýmsir valmöguleikar sem ekki væri hefð fyrir að ræða, hefðu verið ræddir.
Katrín sagði Norðurlönd hafa stillt strengi sína varðandi aðstoð til Úkraínu.
„Við erum auðvitað búin að vera í töluverðu sambandi um þetta en núna þegar við erum að ræða mögulegar leiðir til einhverra lausna, friðartillögur Úkraínumanna. Þá munar gríðarlega um þá reynslu sem býr hjá norrænum stjórnvöldum, hvert á sínu sviði getum við sagt, inn í slíkt samtal.“
Ræddi aðstoð Íslands við Selenskí
Á fundinum með Selenskí í dag segir Katrín að þar hafi sérstaklega verið rætt um mögulegar niðurstöður leiðtogafundarins í Reykjavík.
„Ég var að upplýsa hann um nýjustu stöðuna á þeim málum og þar er auðvitað sérstaklega búið að vera að fjalla um þessa tjónaskrá, um það tjón sem Rússar hafa valdið með innrásinni. Það er líka búið að vera að fjalla um mögulegar leiðir til þess að sú skrá geti skilað raunverulegum aðgerðum í þágu Úkraínu,“ segir Katrín.
Hún segir að einnig hafi verið talað um einstaka þætti friðartillagnanna sem varði ábyrgðaskyldu, hvernig bæta megi umhverfisskaða sem stríðið hefði valdið og fleira.
Katrín segir ekki liggja fyrir hvort Selenskí hafi tök á að sækja fundinn í Reykjavík, en erindrekar frá Úkraínu muni í það minnsta sækja hann.
„Svo ræddum við auðvitað líka áframhaldandi stuðning Íslands og vorum í raun og veru að halda áfram samtali sem við hófum í Kyiv um hvernig hann megi best nýtast.“