Stöð 2 Sport missir ekki af lestinni og mun sýna þrjá leiki beint næstu daga.
Í kvöld verður sýndur beint sjötti leikur NBA-meistara Golden State Warriors og Sacramento Kings en Golden State kemst áfram með sigri á heimavelli sínum.
Kings liðið endaði með þriðja besta árangurinn í Vesturdeildinni í vetur og Mike Brown fékk fullt hús þegar kosið var um þjálfara ársins. Liðið komst loksins í úrslitakeppnina eftir langa fjarveru og byrjaði á því að komast í 2-0 á móti á móti Golden State.
Þessi sería hefur að flestra mati verið sú skemmtilegasta í fyrstu umferðinni þar sem spútniklið Kings er að stríða NBA-meisturum Warriors. Meistararnir hafa þó sýnt styrk sinn með þremur sigurleikjum í röð. Leikurinn hefst klukkan tólf á miðnætti í kvöld.
Annað kvöld verður síðan sýndur fyrsti leikur Denver Nuggets og Phoenix Suns í undanúrslitum Vesturdeildarinnar en þetta eru liðin með besta og fjórða besta árangurinn vestan megin. Suns menn bættu náttúrulega við sig Kevin Durant í vetur og þykja líklegir til að fara alla leið. Leikurinn hefst klukkan hálf eitt aðra nótt.
Þriðja beina útsending helgarinnar verður síðan á sunnudaginn en það er ekki enn vitað hver sá leikur verður. Það fer allt eftir því hvort Golden State Warriors og Los Angeles Lakers (3-2 yfir á móti Memphis Grizzlies ) tekst að klára einvígin sín í kvöld.