Þróttarar röðuðu inn mörkum á undirbúningstímabilinu, bæði á Reykjavíkurmótinu og í Lengjubikarnum, þar sem Ólöf Sigriður Kristinsdóttir, Katla Tryggvadóttir og Freyja Karín Þorvarðardóttir voru áberandi í markaskorun.
Nú hefur Boychuk bæst í hópinn en hún kemur til Þróttar eftir að hafa staðið sig vel hjá Memphis-háskólanum.
Boychuk lék meðal annars fyrir U20-landslið Kanada og á heimasíðu kanadíska knattspyrnusambandsins er kynning á henni þar sem fram kemur að hún tali ensku, frönsku og úkraínsku, en faðir hennar er frá Úkraínu.
Boychuk æfði ekki bara fótbolta heldur einnig fimleika og dýfingar, og náði góðum árangri í dýfingum því hún vann meðal annars til bronsverðlauna á Ameríkuleikum ungmenna (e. Junior Pan American Games) árið 2015.