Lífið

Did­dy segist þurfa að borga Sting 5.000 Banda­ríkja­dali á dag til dauða­dags

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Sting og Diddy saman á Grammy-hátíðinni 2018.
Sting og Diddy saman á Grammy-hátíðinni 2018. Christopher Polk/Getty

Tónlistarmógullinn Diddy, einnig þekktur sem Sean Combs eða Puff Daddy, greindi frá því nýverið að hann þurfi að borga tónlistarmanninum Sting fimm þúsund Bandaríkjadali á dag vegna lagabúts sem hann fékk ekki leyfi fyrir árið 1997.

Ástæðan ku vera að þegar Diddy gaf út lagið sitt I'll Be Missing You notaði hann hljóðbút úr laginu Every Breath You Take eftir Police frá 1983. Hins vegar gleymdi Diddy að biðja um leyfi fyrir notkun á hljóðbútnum. Fyrir vikið segist hann hafa neyðst til að borga fasta summu fyrir notkunina á hverjum degi síðan.

Árið 2018 fór Sting í viðtal hjá The Breakfast Club þar sem hann staðfesti þann orðróm að Diddy þyrfti að borga honum tvö þúsund Bandaríkjadali á hverjum degi. Myndbandsklippa úr þættinum fór nýverið aftur á flug og í gær deildi Diddy myndbroti úr þættinum á Twitter. Þar leiðrétti hann Sting og sagði að upphæðin væri í raun fimm þúsund Bandaríkjadalir á dag.

Frá því að I'll Be Missing You kom út 7. maí árið 1997 hafa liðið 9.465 dagar. Að því gefnu að Diddy sé búinn að borga fimm þúsund Bandaríkjadali á dag reiknast manni til að hann sé búinn að borga Sting rúmlega 47 milljónir Bandaríkjadala. Líklega hafa orðið einhverjar breytingar á summunni með tilliti til verðbólgu og útbreiðslu lagsins. Þó er ljóst að kostnaður Diddy hleypur á mörgum milljónum. 

Þrátt fyrir þennan kostnað Diddy eru hann og Sting góðir félagar í dag enda eru fimmþúsund dalir eflaust aðeins dropi í hafið fyrir atorkusaman athafnamann eins og Diddy.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×