Á fundi þeirra í morgun las Marin upp afsagnarbréf sitt þar sem hún óskaði eftir lausn frá embætti, bæði fyrir sig og ráðuneyti sitt. Niinistö varð við beiðni Marin en bað hana um að sitja áfram þar til ný ríkisstjórn tæki við völdum.
Játaði ósigur og sagði af sér sem formaður
Í finnsku þingkosningunum sem fóru fram um síðustu helgi fékk Jafnaðarmannaflokkurinn 43 þingmenn af tvö hundruð. Íhaldsflokkurinn Sambandsflokkurinn var atkvæðamestur og fékk 48 þingmenn en þjóðernisflokkurinn Finnaflokkurinn fékk 46 þingmenn.
Eftir að úrslitin lágu fyrir játaði Sanna Marin ósigur og óskaði Petteri Orpo, formanni Sambandsflokksins, til hamingju með úrslitin. Hann mun leiða stjórnarmyndunarviðræður enda er hefðin sú að formaður atkvæðamesta flokksins verði forsætisráðherra.
Sanna Marin sagði einnig af sér sem formaður Jafnaðarmannaflokksins og tilkynnti að hún myndi halda áfram sem óbreyttur þingmaður. Þá hefur hún lýst því yfir að hún muni ekki taka við ráðherraembætti jafnvel þó flokkur hennar myndi fara í ríkisstjórn, sem er að vísu talið ólíklegra en hitt.