Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir að metfjöldi flóttamanna hafi sótt um vernd hér á landi. Frá áramótum hafi um 1.300 manns sótt um vernd hér á landi, sem eru helmingi fleiri en sóttu um vernd allt árið 2021. Á sama tíma séu búsetuúrræði á vegum Vinnumálastofnunar nánast fullnýtt og erfiðlega gangi að finna hentugt húsnæði til leigu.
Dæmi eru tekin um að hægt væri að breyta auðu skrifstofuhúsnæði í eigu ríkisins í tímabundið búsetuúrræði fyrir umsækjendur. Undanþágan gildir til 1. júní 2025, verði frumvarpið að lögum.
Þrátt fyrir meiri slaka verða hefðbundnar kröfur gerðar til brunavarna, öryggis og hollustuhátta. Undanþágan gildir því almennt aðeins í tengslum við skipulags- og byggingarlöggjöf, til dæmis þar sem ekki hefur verið gert ráð fyrir íbúðum í aðal- eða deiliskipulagi.
Skipulagsstofnun verður því heimilt að veita undanþágu, eftir beiðni frá Vinnumálastofnun og umsögn frá hlutaðeigandi sveitarfélagi, frá einstökum ákvæðum skipulags- og byggingarlöggjafar. Gert er ráð fyrir því að stök undanþága gildi í 18 mánuði, en að því loknu þurfi að fara í hefðbundið leyfisferli.