Xi Jinping sem nýlega tryggði sér þriðja kjörtímabilið í embætti forseta Kína kom í þriggja daga opinbera heimsókn til Rússlands í gær. Nú þegar Rússar eiga fáa volduga vini skipta samskiptin við Kína meira máli en nokkru sinni fyrr en ólíkt því sem oftast var á áratugum áður er Kína sterkari aðilinn í þessum samskiptum.
Rússar flytja þessa dagana út olíu og gas til Kína á mun lægra verði en þeir fengu áður fyrir þessa orkugjafa í Evrópu. Í morgun fundaði Xi fyrst með Mikhail Mishustin forsætisráðherra Rússlands sem var hástemmdur í yfirlýsingum um hlutverk þjóðanna í alþjóðasamfélaginu.
„Samband okkar er betra en nokkru sinni fyrr í aldagamalli sögu okkar og það hefur áhrif á mótun alþjóðlegra stefnumála með rökréttri margpólun,“ sagði Mishustin og vísaði þar til þeirrar kalda stríðs heimssýnar Putins um að veröldinni væri stjórnað af nokkrum megin pólum þar sem Rússland væri einn póllinn.

Xi lagði hins vegar áherslu á að hann hefði boðið Putin til að sækja síðar á þessu ári þriðja fjölþjóðafund Kínverja um belti og braut áætlun þeirra sem gengur út á að styrkja samgöngur Kína á landi í loft og á sjó. Þar leggur Xi áherslu álestarsamgöngur í gegnum Rússland og siglingarleiðina norður fyrir Rússland sem og hafnaraðstöðu.
„Á meðan á heimsókn minni stendur munum við Pútín forseti fara ítarlega yfir þann árangur sem náðst hefur með þróun tvíhliða sambands okkar. Við munum einnig yfirfara áætlanir um samvinnu okkar í framtíðinni,“ sagði Xi.

Leiðtogarnir sjálfir mættust síðan eftir dramtíska göngu í átt til hvors annars í miklum salarkynnum Kremlar. Enn sem komið er hefur hins vegar ekkert komið fram um það sem Putin þráir mest; hernaðarlegan stuðning Kínverja við blóðuga innrás Putins í fullvalda og sjálfstæða Úkraínu. Putin sagði Xi að Rússa hefðu skoðað friðartillögur Kínverja varðandi Úkraínu vandlega.

„Við vitum að þú gengur út frá meginreglunni um réttlæti og virðingu við grunnákvæði alþjóðalaga um órjúfanlegt öryggi fyrir öll ríki,“ sagði Putin. Rússar bæru mikla virðingu fyrir friðarumleitunum Kínverja.
En svo kom lýsingin á því hlutverki sem Putin sér Rússa gegna í alþjóðakerfinu.
„Almennt stuðla samskipti okkar á alþjóðavettvangi auðvitað að því að styrkja grunnreglur um skipan mála í heiminum og margpólun,“ sagði Vladimir Putin.