Platrow var um árabil ein vinsælasta leikkona Hollywood. Síðustu ár hefur hún þó einbeitt sér að heilsufyrirtæki sínu The Goop og hefur hún skapað sér nafn sem einskonar heilsugúrú. Aðferðir Paltrow hafa þó verið nokkuð umdeildar af heilbrigðisstarfsfólki í gegnum tíðina.
Beinaseyði í hádegismat
Nú á dögunum var Paltrow viðmælandi í hlaðvarpinu The Art of Being Well. Í þættinum má heyra þáttastjórnanda spyrja Paltrow hver heilsurútína hennar sé.
„Ég borða kvöldmat mjög snemma og svo tek ég góða föstu. Ég borða vanalega í kringum tólf [daginn eftir]. Í morgunmat passa ég að fá mér eitthvað sem rífur ekki upp blóðsykurinn minn, þannig ég fæ mér kaffi,“ segir Paltrow og heldur áfram. „Svo elska ég að fá mér súpu í hádegismat. Flesta daga fæ ég mér beinaseyði í hádegismat.“
Æfir daglega og borðar grænmeti í kvöldmat
Þessi viðtalsbútur hefur farið eins og eldur í sinu á samfélagsmiðlum. Netverjar setja spurningarmerki við það að kona markaðssetur sig sem heilsugúrú borði lítið sem ekkert, sérstaklega í ljósi þess að hún segist stunda líkamsrækt daglega.
„Ég reyni að hreyfa mig alltaf í einn klukkutíma. Ég fer annaðhvort í göngutúr eða fer í pílates eða geri Tracy Anderson æfingu. Svo þurrbursta ég mig og fer í gufubað. Ég fer í infrarauða gufu í 30 mínútur.“
Í kvöldmat segist Paltrow svo fá sér mikið af grænmeti. „Mér finnst mikilvægt að stuðla að hreinsun líkamans,“ segir hún.
Kölluð „möndlumamma“
Ef marka má þessa rútínu samanstendur mataræði Paltrow af kaffi, súpu eða beinaseyði og grænmeti. Fjölmargir notendur samfélagsmiðlisins TikTok hafa deilt myndbandinu og skrifað athugasemdir þess efnis að Paltrow sé að senda skaðleg skilaboð út í samfélagið og að hún sé að normalísera það að fólk svelti sig.
„Þetta hljómar eins og undirbúningur fyrir ristilspeglun,“ skrifar einn notandi.
Þá hefur Paltrow verið kölluð „möndlumamma“ en það er hugtak sem hefur verið mikið notað á TikTok undanfarin misseri. Hugtakið er notað yfir mæður sem eru alltaf í megrun og reyna með skaðlegum hætti að passa upp á að börnin sín fitni ekki. Yolanda Hadid, móðir fyrirsætanna Bellu og Gigi Hadid, er hin upprunalega „möndlumamma“. Hugtakið er sprottið út frá því að hún skammtaði dætrum sínum möndlur.