Ragnar Þór vann Elvu í kosningunum í dag með 57 prósentum atkvæða gegn 39,4 prósentum Elvu. Var þetta í annað sinn sem Ragnar stóð af sér mótframboð sem formaður VR.
Í samtali við fréttastofu segist Elva vonast að það sem hún hefur haft fram að færa síðustu vikur nái til bæði formanns og stjórnar. Þau geti tekið eitthvað af því með sér inn í vinnuna sem er framundan.
„Þetta er 30 prósent kjörsókn. Ég held að það sé miklu meira þarna inni en kjörsóknin bendir til. Hugsanlega er það sem ég hef fram að færa ekki alveg erindi núna inn í þennan hóp en vonandi fyrr en seinna. Það kemur í ljós hvað það verður,“ segir Elva.
Hún segir það hafa verið mikla áhættu að skora sitjandi formann á hólm.
„Ég sé ekki eftir neinu. Ég tek með mér alveg gríðarlega mikla reynslu. Ég er búin að tala við fjöldann allan af félagsfólki á fjölmörgum og fjölbreyttum vinnustöðum. Ég mæli með því að formaður og stjórn geri það annað slagið, fari út og tali við sitt félagsfólk. Því það er þar þar sem hugmyndirnar og ábendingarnar eru,“ segir Elva.
Hún hafði tilkynnt um það fyrir nokkru síðan að hún myndi ekki halda áfram sem starfsmaður VR skildi hún ekki komast í formannsstólinn. Hún mun þó klára sína vinnu og kemur það í ljós síðar hvað tekur við.