Flugvélin, sem er í eigu fjarskiptafyrirtæksins Conexon, var á leið frá New Hampshire til Virginíu þegar hún lenti í mikilli ókyrrð sem olli dauða eins farþega. Ákveðið var að lenda þotunni, sem er framleidd af Bombardier, í Connecticut en ekkert liggur fyrir að svo stöddu um skemmdir á þotunni. Þetta hefur AP eftir Söruh Sulick, talskonu samgöngunefndar Bandaríkjanna.
Þá liggur ekki fyrir hvort sá látni hafi verið með sætisólar spenntar þegar ókyrrðin reið yfir.
Andlát af völdum ókyrrðar í flugi eru fáheyrð. „Ég man ekki hvenær ókyrrð olli andláti síðast,“ hefur AP eftir Robert Sumwalt, fyrrverandi formanni samgöngunefndar Bandaríkjanna.
Ókyrrð orsakaði hins vegar um þriðjung slysa á fólki í farþegaþotum á tímabilinu 2009 til 2018, samkvæmt gögnum samgöngunefndarinnar. Greint var frá því nýverið að 36 farþegar þotu Hawaiian Airlines hafi þurft að leita sér aðhlynningar eftir mikla ókyrrð.