Ástæðan fyrir þessu er barátta Bieber við Ramsay Hunt heilkennið. Um er að ræða taugasjúkdóm sem veldur lömun í andlitinu.
Það er óhætt að segja að þetta tónleikaferðalag Bieber hefur ekki gengið vel. Fyrstu tónleikarnir áttu að fara fram í maí árið 2020 og þeir síðustu í september sama ár.
Fresta þurfti öllum tónleikunum til ársins 2021 vegna Covid-19 faraldursins. Þar sem faraldurinn var ennþá í gangi árið 2021 var tónleikunum aftur frestað, í þetta skiptið til ársins 2022.
Bieber tókst loksins að halda fyrstu tónleikana í febrúar í fyrra. Hann fór á fullt í kjölfarið og hélt tónleika víðsvegar um Bandaríkin, Kanada og Mexíkó fram í júní. Í júlí færði hann sig svo yfir til Evrópu, hélt tónleika meðal annars í öllum Norðurlöndunum fyrir utan Ísland. Eftir það hélt hann til Suður-Ameríku og hélt eina tónleika í Rio de Janeiro í Brasilíu.
Hann átti eftir að halda fleiri tónleika í Suður-Ameríku sem og í Asíu, Afríku og Evrópu. Það er þó ljóst núna að ekkert verður af þeim tónleikum. Síðustu tónleikarnir á ferðalaginu voru því þeir sem haldnir voru í Rio de Janeiro.