Viðskipti innlent

Enn lækkar í­búða­verð á höfuð­­borgar­­svæðinu

Bjarki Sigurðsson skrifar
Síðustu þrjá mánuði hefur sérbýli lækkað um fjögur prósent.
Síðustu þrjá mánuði hefur sérbýli lækkað um fjögur prósent. Vísir/Vilhelm

Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 0,5 prósent milli desember og janúar. Þetta er þriðja mánuðinn í röð sem íbúðaverð lækkaði. Ekki hafa verið undirritaðir færri kaupsamningar á mánuði síðan í janúar árið 2011.

Þetta kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans. Svo löng samfelld lækkun á íbúðaverði á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki sést síðan undir lok ársins 2009 en þá voru þó lækkanirnar nokkuð meiri en nú. Í Hagsjánni segir að markaðurinn sé farinn að sýna umtalsverð merki kólnunar. 

„Það mun gera sitt til við að ná verðbólgu niður líkt og aðgerðir Seðlabankans, sem nú virðast vera að skila nokkrum árangri, hafa miðast að því að gera,“ segir í Hagsjánni. 

Sérbýli lækkaði um 0,74 prósent milli mánaða en fjölbýli um 0,4 prósent. Síðustu þrjá mánuði hefur sérbýli lækkað um fjögur prósent. Ekki er jafn snögg kólnun á fjölbýli en síðustu þrjá mánuði hefur það lækkað um 0,7 prósent. 

Árshækkun vísitölu íbúðaverðs er nú 14,9 prósent og hefur ekki verið lægri síðan í maí árið 2021.

Ekki hafa verið færri kaupsamningar um íbúðarhúsnæði undirritaðir síðan í janúar árið 2011 en þeir voru einungis 280 talsins. Til samanburðar voru þeir 529 í desember. Í hagsjánni segir að janúar sé oft rólegur á íbúðamarkaði en að nýliðinn janúar virðist skera sig úr. 

„Það er nokkuð ljóst að íbúðamarkaðurinn er farinn að sýna hröð merki kólnunar enda hefur Seðlabankinn gripið til ýmiskonar aðgerða til þess að stemma stigu við þróuninni, t.d. hækkað stýrivexti verulega og hert lánþegaskilyrði. Þessar aðgerðir virðast nú vera að skila tilætluðum árangri,“ segir í Hagsjánni. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×