Leikurinn virkar þannig að Kjartan Atli Kjartansson, þáttastjórnandi, setur fram fullyrðingu sem sérfræðingar þáttarins þurfa að svara játandi eða neitandi og svo rökstyðja svar sitt. Með Kjartani Atla voru þeir Sigurður Orri Kristjánsson og Tómas Steindórsson að þessu sinni.
Kevin Durant og Devin Booker eru besta tvenna deildarinnar
„Mér finnst Jayson Tatum og Jaylen Brown tvennan nokkuð góð. Og á pappír er LeBron James og Anthony Davis tvennan ansi góð líka,“ sagði Tómas áður en hann sagði einfaldlega að hann væri ekki sammála að Durant og Booker tvennan væri sú besta. Að hans mati leikur besta tvenna deildarinnar í grænu.
Hvíldin er að skemma deildarkeppnina
„Ég er sammála því. Maður á ekki að fá fimmtudagsleik milli Boston Celtics og Milwaukee Bucks og það eru allir að hvíla. Það er vond vara og NBA deildin mun „adressa“ þetta í næstu samningum, það hlýtur bara að vera. Við erum að sjá þetta alltof oft á stórum augnablikum, í stórum leikjum sem er búið að tala upp þá eru menn allt í einu að hvíla,“ sagði Sigurður Orri um stöðu mála.
Einnig var farið yfir hvort pressan væri á Philadelphia 76ers og hvort Luka [Dončić] og Kyrie Irving sambandið muni „floppa.“