Þetta kemur fram í tilkynningu frá slysavarnafélaginu Landsbjörg. Íslenski hópurinn lenti í Tyrklandi fyrr í vikunni og kom sér fyrir við Hatay Expo svæðið í Antayka-borg. Unnið hefur verið að samhæfingu og stjórnun aðgerða ásamt heimamönnum og fólki frá Hollandi, Sviss, Austurríki og Grikklandi.
Sjá einnig: Íslenski hópurinn í Tyrklandi: „Þetta er mjög slæmt ástand“
„Það var farið að líða að lokum starfa Íslendinga á svæðinu og ráðstafanir um heimferð gerðar þegar þessi ósk kom frá bandaríska hópnum,“ segir í tilkynningu.
Fjórir aðgerðastjórnendur hópsins hafi því verið sóttir á þyrlu frá bandaríska hópnum sem flaug til Adiyaman þar sem þau munu vinna og dvelja í þeirra búðum.
„Hinn hluti hópsins lagði af stað seinni partinn í dag til Adana flugvallar, þar sem hann mun fljúga með svissneskum björgunarhóp til Sviss á morgun, mánudag. Þau munu gista þar eina nótt og er áætluð heimkoma þeirra er á þriðjudaginn 14. febrúar.“

